„Þetta er flott fyrirtæki. En í erfiðu efnahagsumhverfi síðustu árin hafa safnast upp skuldir. Það er niðurstaðan, að reksturinn eins og hann er í dag stendur ekki undir þeim“ segir Arna Harðardóttir, stjórnarformaður Lifandi markaðar. Eins og VB.is greindi frá í morgun ákvað stjórn Lifandi markaðar að óska eftir því að fyrirtækið verði sett í þrot . Skiptastjóri hefur verið settur yfir þrotabúið og er það hans að koma fyrirtækinu í verð.

Lifandi markaður rekur þrjár verslanir og veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru enn opnir og hafa engar breytingar verið gerðar á honum að öðru leyti. Auður I, sjóður á vegum Auðar Capital, keypti Lifandi markað árið 2009. Auður I á enn hluti í fyrirtækjum á borð við Ölgerðina, Já, Íslenska gámafélagið, Yggdrasil, Tal og Gagnavörsluna. Stutt er síðan Auður I seldi hlut sinn í Securitas. Auður sameinaðist Virðingu um áramótin og tók sameinað fyrirtæki upp nafn Virðingar.

Vonar að reksturinn haldi áfram

Arna segir að ákvörðunin að setja reksturinn í þrot hafa verið tekna að vel athuguðu máli.

„Það var búið að skoða ýmsar leiðir til að bæta reksturinn og laga hann. Svo höfðum við í nokkra mánuði reynt að selja fyrirtækið,“ segir Arna. Hún bendir á að m.a. sé ein ástæða þess að reksturinn hafi ekki gengið sem skyldi þá að sala á lífrænum vörum og vörum tengdum þeim hafi færst í auknum mæli í lágvöruverðsverslanir. Þar séu nú heilu gangarnir af lífrænum vörum sem voru þar ekki áður. Þessi þróun hafi skilað því að sérverslanir með lífrænar vöru hafi átt undir högg að sækja.

„Þetta er mjög öflugt fyrirtæki og flott konsept og mikil þekking til staðar hjá starfsfólki. Þá eru viðskiptavinirnir traustir. Vonandi heldur reksturinn áfram í einhverri mynd. En það er ekki lengur í okkar höndum,“ segir Arna.