Samtök atvinnulífsins skrifuðu undir kjarasamninga við nokkur verkalýðsfélög fyrr í dag. Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir í samtali við Viðskiptablaðið að ljóst sé að í samningunum felist mjög miklar launahækkanir. Samningarnir séu framhlaðnir þannig að töluverðar launahækkanir verði strax í upphafi.

„Á móti kemur að samningarnir eru til langs tíma og munu skapa fyrirtækjum ákveðinn fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi sínu til lengri tíma litið. Við vonumst til þess að við getum unnið úr þessum samningum þannig að þeir í senn skili launafólki umtalsverðri aukningu í kaupmætti en geri okkur um leið kleift að byggja hér áfram á stöðugleika og áframhaldandi velgengni í efnahagslífinu,“ segir Þorsteinn.

Staða fyrirtækja misjöfn

Spurður um það hvort fyrirtæki muni geta sleppt því að beina launahækkunum út í verðlag segir Þorsteinn að tíminn verði að leiða það í ljós. Rekstrarleg staða fyrirtækja og hlutfallslegur launakostnaður þeirra séu mjög misjöfn. „Það er alveg ljóst að þetta mun reyna mjög á þanþol fyrirtækja almennt. En við vonumst til þess að mönnum takist að vinna úr þeirri stöðu þannig að í heildina litið takist okkur að halda verðbólgunni í skefjum,“ segir hann.

Í hvaða greinum eru fyrirtæki viðkvæmust?

„Það liggur auðvitað fyrir að þar sem launahlutfallið er mjög hátt að þá kemur þetta mjög þungt niður á rekstri fyrirtækja.“

Til dæmis í ferðaþjónustu?

„Já, að einhverju marki í ferðaþjónustu en það má horfa til atvinnugreina eins og matvælaiðnaðar, og ýmiss konar þjónustugreina. En eins og ég segi, þetta verður bara tíminn að leiða í ljós hvernig tekst í þeim efnum en við vonum svo sannarlega að það takist að halda aftur af verðbólguþrýstingi,“ segir Þorsteinn.