Blámi er stofnaður af Landsvirkjun, Orkubúi Vestfjarða og Vestfjarðastofu og leiddur áfram af viðskiptaþróunarsviði Landsvirkjunar. Markmiðið er að ýta undir og stuðla að orkuskiptum, koma auga á tækifærin og nýta þau,“ segir Þorsteinn Másson, nýráðinn framkvæmdastjóri Bláma.

„Ég tel, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að það sé nauðsynlegt að þróast með orkuskiptunum. Vestfirðir koma þar sterkir inn. Hagkerfið er keyrt áfram á dísel og jarðvarma, olían heldur bátunum á floti, sem og prömmunum fyrir fiskeldið og meira að segja varaaflið er í einhverjum tilfellum keyrt á olíu. Við þurfum að koma auga á tæki færin og nýta þau. Gætum við til að mynda sett vetni eða ammoníak á togarana og rafmagn í prammana? Við sjáum tækifæri í sjávarútveginum og seinna meir gæti verið hægt að skala lausnir þaðan upp,“ segir Þorsteinn.

Hinn nýráðni framkvæmdastjóri er fæddur og uppalinn á Ísafirði og sótti ekki vatnið yfir lækinn þegar kom að makaleit, þótt eldri kynslóðir, markaðar af bæjarríg, kynnu að vera á öðru máli. Eiginkona hans er Katrín Pálsdóttir, fjármálaog skrifstofustjóri Bolungarvíkur, en þar búa þau ásamt börnum sínum, þrettán ára tvíburum. Sem kunnugt er vantar Bolungarvík nokkra íbúa upp á til að geta talist sjálfstætt sveitarfélag þegar sameiningarfasi næstu ára fer í gang. Þorsteinn segir að þau hafi lagt sitt af mörkum hvað það varðar. Aftur á móti hvetji þau aðra til dáða til að halda sér réttum megin við þúsund íbúa markið.

„Menn þurfa að leggja mikið á sig til að viðhalda rígnum eftir að göngin komu. Áður starfaði Katrín í Landsbankanum á Ísafirði og þá hjólaði hún reglulega í vinnuna,“ segir Þorsteinn. Fyrir meðalmanninn er það tæplega sanngjarn mælikvarði en helstu áhugamál fjölskyldunnar eru útivist og þátttaka í járnkarli. Þar gerir Þorsteinn hið besta til að halda í við betri helminginn.

„Það er mjög dýrmætt að eiga þessi áhugamál saman, járnkarlinn og gönguskíðin. Konan mín er hálfgert fyrirbrigði hvað þetta varðar. Ég nefni það stundum sem dæmi að árið 2019 fékk hún krabbamein og það þurfti að skera burt helminginn af öðru lunganu. Sjö vikum eftir aðgerð var hún mætt til Indónesíu og kláraði hálfan járnkarl, svona eins og fólk gerir. Markmiðið mitt er alltaf bara að gera mitt besta til að halda í við hana,“ segir Þorsteinn hlæjandi að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .