Reynir Grétarsson, forstjóri og stofnandi Creditinfo, hefur starfsins vegna mikið ferðast en segir Kákasuslöndin í miklu uppáhaldi. „Í löndum eins og Georgíu og Aserbaídsjan er fólkið mjög vingjarnlegt og gott heim að sækja. Annars er fólk frábært hvar sem það býr og öll lönd eru falleg ef maður vill sjá fegurðina. Það er svo eitthvað við Afríku sem er sérstakt. Álfan er einhvern veginn mannlegri en aðrar heimsálfur, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Þar upplifir maður meiri hamingju og gleði en víða annars staðar, en eins er þar að finna meiri mannlega eymd og grimmd,“ segir Reynir.

Reynir kveðst nýlega hafa verið í Suður-Súdan og það hafi verið mjög merkilegt land heim að sækja. „Þar er nær enginn landbúnaður fyrir utan hirðingja, sem ferðast með kúahjörðum sínum. Mér þótti t.d. mjög merkilegt að heyra að kjúklingurinn sem við borðuðum þar kom alla leiðina frá Brasilíu í gegnum Indland. Þetta þótti mér sérstakt í ljósi þess hve frjósamt landið er.“

Hann segir að þegar maður komi til Kenía blasi við allt annar veruleiki því þar sé mikill landbúnaður. Fyrir því séu menningarlegar og sögulegar ástæður og hluti af því sé að þar hafi ættbálkar barist um völdin mjög lengi.

„Ég upplifði það þó ekki þannig að ég væri í sérstakri hættu þegar ég var þar og í raun líður mér verr þegar ég fer niður í miðbæ Reykjavíkur um helgar. Maður verður hins vegar að passa sig á svona stöðum og við höfum lent í því að starfsmenn okkar voru rændir þegar þeir voru þarna. En það var líka vegna þess að þeir fylgdu ekki reglum og fóru út á barinn að kvöldi til. Það getur verið hættulegt.“

Reynir er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .