*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Fólk 17. febrúar 2021 14:48

Reynir Bjarni stýrir nýrri deild Valitor

Reynir Bjarni Egilsson er nýr framkvæmdastjóri Útgáfulausna hjá Valitor. Ný deild sem varð til með sameiningu tveggja deilda.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Reynir Bjarni Egilsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Útgáfulausna hjá Valitor. Á sama tíma sameinuðust deildirnar Útgáfulausnir og Útgáfuvinnsla undir nafni þeirrar fyrrgreindu. Útgáfulausnir sinna allri þjónustu, rekstri og hugbúnaðarþróun fyrir þær lausnir sem Valitor býður bönkum og sparisjóðum í tengslum við útgáfu greiðslukorta. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.  

Reynir Bjarni hefur langa reynslu af störfum á greiðslukortamarkaði og hefur starfað hjá Valitor siðan 2004. Þar hefur hann m.a. starfað við söluráðgjöf, fjármál, vörustýringu og nú síðast sem stjórnandi á vöruþróunar- og rekstrarsviði. Reynir Bjarni er með B.Sc í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. 

„Valitor er með leyfi frá Visa og MasterCard til útgáfu greiðslukorta og Útgáfulausnir koma að útgáfu allra Visa greiðslukorta á Íslandi í samstarfi við banka og sparisjóði. Samhliða því halda Útgáfalausnir úti kerfum sem gera farsímagreiðslur mögulegar, bjóða upp á endurkröfuþjónustu og sinna neyðarþjónustu til korthafa utan opnunartíma banka og sparisjóða,“ segir í fréttatilkynningu Valitor.