Reynir Grétarsson, stofnandi CreditInfo, segist hafa orðið móðgaður við að ná ekki kjöri í stjórn Sýnar á hluthafafundi í ágúst eftir að hafa „lagt mikið undir“. Í nýjasta hlaðvarpsþætti Chat after Dark, ræðir hann opinskátt um skoðanir sínar á afstöðu lífeyrissjóða í hluthafahópnum, af hverju hann bauð sig ekki aftur fram og tímasetninguna á ráðningu nýs forstjóra.

„Ég taldi mig hafa mikið fram að færa og hafa lagt mikið undir. Þar sem ég hef verið í stjórn, þar hefur gengið vel. Ég hélt að það yrði metið. Síðan kom í ljós að stærstu meðeigendur mínir að þessu fyrirtæki, lífeyrissjóðirnir, enginn þeirrra gaf mér eitt einasta atkvæði. Mér fannst það ekki drengilegt. Mér fannst það lélegt af þeim,“ segir Reynir.

„Ég var móðgaður já, ég er ekkert að leyna því. Ég taldi að ég væri hæfari, hefði búið til meiri verðmæti fyrir hluthafa í fyrirtækjum sem ég hef leitt heldur en allir sem voru kosnir í stjórn samanlagt. Þannig leið mér þó að auðvitað er eitthvað egó í því. Svo setur maður það aftur fyrir sig.“

Umrætt stjórnarkjör fór fram á hluthafafundi Sýnar í lok ágúst. Fjárfestingarfélagið Gavia Invest hafði þá keypt 16% hlut í Sýn fyrir um 2,7 milljarða króna, þar á meðal 12,7% hlut Heiðars Guðjónssonar, þáverandi forstjóra. Í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun ágúst sagði Reynir að fjárfestingarfélagið sitt InfoCapital ætti rúmlega helming í Gavia.

Jón Skaftason, forsvarsmaður Gavia, náði kjöri á fundinum en öðru leyti var stjórn Sýnar óbreytt. Lífeyrissjóðirnir lögðu nær öll atkvæði sín á Pál Gíslason og Jóhann Hjartarson en hinir tveir sitjandi stjórnarmennirnir, Sesselja Birgisdóttir og Petrea I. Guðmundsdóttur, voru sjálfkjörnir.

Reynir segist hafa gengið á eftir skýringum frá lífeyrissjóðunum um ráðstöfun atkvæða þeirra og hvort það hafi verið eitthvað í hans fari eða umræða um hann sem hefði truflað þá. Sjóðirnir hafi tjáð sér að þeir hafi einfaldlega viljað fara hægt í sakirnar og að afstaða þeirra væri ekki persónleg eða vegna óánægju með breytingar í hlutahafahópnum.

„Menn vildu fara hægar og kjósa sína menn, þeir eru í fullum rétti með það. Mér fannst þetta ekki skemmtilegt. Mér finnst að hluthafarnir í svona fyrirtæki eigi að hafa sömu hagsmuni sem er að reyna að hámarka verðmæti hluthafa og velja hæfasta fólkið í stjórn en ekki sitt eigið fólk eða fulltrúa.

Þetta er líka svolítið hættulegt að lífeyrissjóðirnir eru svo fyrirferðarmiklir, að ef þeir taka sig saman og kjósa allir eins. Hvaða skilaboð eru það til einkafjárfestanna? Það fyrsta sem ég hugsaði eftir á er að þetta hefðu verið mistök. Ég á ekki að vera að setja mikið af peningum í svona og svo bara myndast einhver blokk á móti.“

Tímasetning á ráðningu forstjóra gaf merki um „vonda orku“

Rúmum þremur vikum eftir framangreint stjórnarkjör var boðaður hluthafafundur og stjórnarkjör á ný að kröfu einkafjárfesta. Viku síðar var tilkynnt um að Yngvi Halldórsson, sem var þá framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Sýnar, hefði verið ráðinn til að taka við af Heiðari sem forstjóri félagsins.

„Það var augljóst að það yrðu miklar breytingar á stjórninni. Þá flýtir stjórnin sér að ráða forstjóra þó að það væru bara nokkrar vikur í fund þar sem sú stjórn færi frá,“ segir Reynir.

„Það fannst mér vera svona... þess vegna ákvað ég að bjóða mig ekki fram aftur. Ég hugsaði, það er einhver svona vond orka hérna, ég ætla persónulega fyrir mig að bakka aðeins og sjá hvernig þetta fer. Hvort að við fáum ekki betri stjórn heldur en sú sem var.“

Niðurstaða seinna stjórnarkjörsins sem fór fram á hluthafafundi þann 20. október sl. var að auk Jóns Skaftasonar var Hákon Stefánsson, framkvæmdastjóri InfoCapital og náinn samstarfsmaður Reynis, og Rannveig Eir Einarsdóttir, eigandi byggingarfyrirtækisins Reirs Verks og stór hluthafi Sýnar, kjörin í stjórnina. Fulltrúar einkafjárfesta eru því í meirihluta í stjórn Sýnar í dag.

„Ég vona það að ný stjórn sýni það að hún sé traustsins verð og að það gangi vel hjá þessu fyrirtæki – að allir verði vinir og vinni saman. Við höfum nákvæmlega sömu hagsmuni, þ.e. að fyrirtækinu gangi vel.“

Umsvif lífeyrissjóða í Kauphöllinni hættuleg

Spurður nánar hvort umsvif lífeyrissjóða á íslenka hlutabréfamarkaðnum geti talist heilbrigð, svarar Reynir að honum finnist það ekki. Hann telur það jákvæða þróun þegar einkafjárfestar fara inn í félög með fjármagn, þekkingu og hugmyndir um breytingar sem geti aukið verðmæti.

„Þetta er pínu hættulegt að mínu mati, það er meira að segja hættulegt fyrir mig að tala um þetta því þeir eru svo valdamiklir þessir aðilar. Það er kannski eitthvað félag þar sem ég er í stjórn eða tengist sem er að selja skuldabréf, kaupendurnir eru lífeyrissjóðirnir. Þú kemur þér í vandræði tiltölulega auðveldlega.“

Hann veltir fyrir sér hvernig fulltrúar lífeyrissjóða í stjórn skráðs fjarskiptafélags myndu bregðast við ef félagið hygðist „snarlækka“ verð hjá sér.

„Þeir vita að þeir eiga kannski meirihlutann í hinu fjarskiptafélaginu [á markaðnum] og stóran hluta í því þriðja.“ Lífeyrissjóðirnir gætu ekkert nema tapað á slíkri verðlækkun og harðri samkeppni um viðskiptavini.

„Það eru hætturnar í þessu þannig að þeir sem eru svona ofboðslega stórir þurfa að fara varlega. Þess vegna leyfi ég mér að tala aðeins um þetta,“ segir Reynir.

Í grunninn „gagna-business“

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði