Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Memento, sem sérhæfir sig á sviði stafrænna veskja, hefur tryggt sér 170 milljóna króna fjármögnun frá InfoCapital, fjárfestingarfélagi Reynis Grétarssonar stofnanda Creditinfo, Magnúsi Steinarr Norðdahl, fyrrum forstjóra LS Retail, og Pólaris, fjárfestingarfélagi Einars Sveinssonar fjárfestis.

Memento segir að fjármagnið verði nýtt í áframhaldandi þróun á lausn fyrirtækisins og uppbyggingu á dreifileiðum í N-Ameríku. Lausnin sem Memento hyggst skala á erlendum mörkuðum er skýjalausn sem gerir fyrirtækjum sem gefa út greiðslukort kleift að fá stafrænt veski undir sínum merkjum nánast samdægurs, að því er kemur tilkynningu.

„Flækjustigið við að setja upp stafrænt veski fyrir kort (e. card wallet) er töluvert og sérstaklega ef bæta á við flóknari virkni. Markmið Memento er að veita létta lausn sem hægt er að gefa út hratt og örugglega og býður jafnframt upp á góðan grunn til frekari þróunar.“

Sjá einnig: Bandarískur banki með íslensku hugviti

Markhópur lausnarinnar eru meðal annars tryggingafélög, lífeyrissjóðir og sambærileg félög sem greiða fólki upphæðir inn á greiðslukort. Einnig eru þar fyrirtæki sem sjá um launagreiðslur til verktaka í nýju landslagi svokallaðs verkefnahagkerfis (e. gig economy).

Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Memento:

„Góðir innviðir fyrir stafræn veski er forsenda þess að hægt sé að auka framboð hagstæðra og öruggrar fjármálaþjónustu, sérstaklega á mörkuðum þar sem einokun og hæg framþróun á sér stað. Öruggt og gott aðgengi að daglegum bankaviðskiptum er sjálfsagður hlutur á okkar markaði en er ekki raunin fyrir milljarða manna.

Með nýrri tækni á sviði stafrænna veskja einfaldast til muna að nýskrá viðskiptavini og dreifing á t.d. greiðslukortum verður með öllu rafræn. Bætt aðgengi og aukin fjárhagsleg þátttaka almennings er eitt af heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna en innviðir líkt og Memento býður upp á eru lykillinn að raunverulegur árangur náist. Við teljum að það geti hraðað útgáfuferli og sparað þjónustuveitendum hundruð milljóna króna í uppsetningu og rekstri árlega.“