*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Fólk 26. ágúst 2021 17:05

Reynir ráðinn forstjóri SaltPay

Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, tekur við sem forstjóri SaltPay. Fyrirtækið flytur úr Ármúlanum í Katrínartún.

Ritstjórn
Reynir Grétarsson
Aðsend mynd

Reynir Grétarsson hefur verið ráðinn sem forstjóri SaltPay. Reynir var áður stofnandi og einn aðaleigenda CreditInfo og starfaði sem forstjóri fyrirtækisins til ársins 2017. Hann tekur við af þeim Eduardo Pontes og Marcos Nunes sem hafa undanfarið ár deilt forstjórastól SaltPay. Reynir hefur setið í stjórn fyrirtækisins um nokkra hríð og mun samhliða ganga úr stjórn fyrirtækisins.

„Reynir hefur yfirgripsmikla þekkingu á rekstri, greiðslumiðlun og þróun tæknilausna sem auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum að eiga viðskipti,“ segir í tilkynningu SalPay. Reynir er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og gráðu í mannfræði frá sama skóla

Fyrirtækið, sem hét áður Borgun, flutti í dag skrifstofur sínar í nýtt húsnæði að Katrínartúni 4, úr Ármúla 28 þar sem fyrirtækið og forverar þess höfðu verið til húsa allt frá stofnun árið 1980. Samhliða flutningunum leitar SaltPay nú að starfsfólki í nokkur störf innan félagsins en markmiðið er að ráða í heildina um 20 nýja starfsmenn.

„Markmið flutninganna er að skapa dýnamískara umhverfi og efla samvinnu teyma innan SaltPay. Með þeim er verið að hefja nýjan kafla í sögu fyrirtækisins.“