Reynir Smári Atlason hefur verið ráðinn forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo. Hann kemur til Creditinfo frá Landsbankanum þar sem hann hefur starfað frá árinu 2020 sem sérfræðingur bankans í sjálfbærnimálum.

Áður var Reynir einn af stofnendum ráðgjafafyrirtækisins Circular Solutions og hafði í gegnum störf sín þar komið að flestum grænum skuldabréfaútgáfum hér á landi ásamt því að aðstoða mörg af stærstu fyrirtækjum landins við upplýsingagjöf um sjálfbærni.

Reynir lauk doktorsprófi í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands árið 2015. Hann starfaði sem lektor við verkfræðideild Háskólans í Suður-Danmörku (SDU) frá 2015 til 2019. Á undanförnum árum hefur hann birt fjölda ritrýndra greina og bókakafla á sviði umhverfisvísinda og sjálfbærni. Reynir er einnig aðjúnkt við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands ásamt því að sitja í stjórn IcelandSIF, samtökum um ábyrgar fjárfestingar.

Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo

„Það er stórt skref fyrir mig að ganga til liðs við Creditinfo. Fyrirtækið er í lykilstöðu til að styðja við sjálfbærnivegferð atvinnulífsins og getur haft gífurleg áhrif með miðlun viðeigandi sjálfbærniupplýsinga til fjármálamarkaðarins. Ég er því mjög spenntur fyrir komandi tímum og þeim verkefnum sem mín bíða”

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo

„Reynir býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af sjálfbærnimálum sem mun nýtast Creditinfo vel en við höfum sett okkur metnaðarfulla stefnu í sjálfbærnimálum. Við sjáum stóraukna þörf á markaðnum til að styðja fyrirtæki, fjárfesta og lánveitendur í þeirra ákvarðanatöku þar sem sífellt er lögð meiri áhersla á upplýsingar um stöðu sjálfbærnimála hjá fyrirtækjum.“