Reynir Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hjá Borealis Alliance með aðsetur í Reykjavík. Í starfinu ber Reynir ábyrgð á daglegri starfsemi samtakanna gagnvart stjórn. Í því felst almennur rekstur, gangsetning verkefna sem miða að markmiðum samtakanna ásamt rekstri verkefnastofns. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Reynir hefur undanfarin þrjú ár starfað sem Framkvæmdastjóri stefnumörkunar og regluverks fyrir Borealis Alliance með aðsetur í Brussel. Þar hefur hann borið ábyrgð á að viðhalda og auka áhrif samtakanna með helstu hagsmunaaðilum eins og flugfélögum, flugleiðsöguveitendum, evrópskum og alþjóðlegum stofnunum.

„Reynir hefur víðtæka reynslu á þessu sviði og spannar ferill hans 28 ár í mismunandi stjórnunarstörfum, m.a. sem framkvæmdastjóri mannvirkja og leiðsögusviðs hjá Samgöngustofu (áður Flugmálastjórn Íslands) við stjórnsýslu og eftirlit m.a. á sviði flugleiðsögu, flugvalla og flugverndar. Áður vann hann sem ráðgjafi á sviði flugmála hjá Integra Consult AS í Danmörku og vann að verkefnum fyrir stofnanir og fyrirtæki á Norðurlöndunum, Evrópu og Afríku. Auk þess hefur hann starfað sem ráðgjafi og verkefnastjóri hjá Gagnaveitu Reykjavíkur, Kögun hf og Flugmálastjórn Íslands,“ segir í tilkynningunni.

Borealis Alliance voru stofnuð 2012 og eru samtök 9 flugleiðsöguveitenda í norður Evrópu sem veita flugleiðsöguþjónustu í loftrými viðkomandi ríkja þar sem fyrirtækin starfa. Markmið samtakanna er að með samvinnu á viðskiptalegum grunni nái fyrirtækin fram hagkvæmni í rekstri og uppfyllingu krafna. Isavia ohf er aðili að Borealis Alliance.