Reynir Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri stefnumörkunar og regluverks (Policy and Regulatory Director) hjá Borealis Alliance með aðsetur í Brussel.  Verkefni Reynis eru að viðhalda og auka áhrif samtakanna gagnvart alþjóðastofnunum og hagsmunaaðilum í Evrópu er varða stefnumörkun og regluverk á sviði flugleiðsögu. Jafnframt á hann að vinna að tækifærum til fjármögnunar verkefna, styðja við fyrirtækin vegna eftirlits, þróa og innleiða eftirlitsstefnu samtakanna í sameiginlegum verkefnum fyrirtækjanna.

„Reynir starfaði áður sem framkvæmdastjóri mannvirkja og leiðsögusviðs hjá Samgöngustofu (áður Flugmálastjórn Íslands) við stjórnsýslu og eftirlit m.a. á sviði flugleiðsögu, flugvalla og flugverndar.  Fyrir þann tíma starfaði hann sem ráðgjafi á sviði flugmála hjá Integra Consult AS í Danmörku og vann að verkefnum fyrir stofnanir og fyrirtæki á Norðurlöndunum, Evrópu og Afríku.  Reynir hefur starfað sem ráðgjafi og verkefnisstjóri á ýmsum sviðum svo sem í upplýsingatækni, ljósleiðaravæðingu heimila í Reykjavík, tæknileg verkefni á sviði fjarskipta, ratsjárvinnslu og við fluggagnakerfi í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík þar sem hann hóf sinn starfsferil hjá Flugmálastjórn Íslands árið 1991,“ segir í tilkynningunni.

Borealis Alliance eru samtök 9 flugleiðsöguveitenda í norður evrópu sem veita flugleiðsöguþjónustu í loftrými sem viðkomandi lönd bera ábyrgð á. Markmið samtakanna er að með samvinnu á viðskiptalegum grunni nái fyrirtækin fram hagkvæmni í rekstri og uppfyllingu krafna. Isavia ohf er aðili að Borealis Alliance.