Reynir Traustason, fyrrum ritstjóri DV hyggst snúa aftur á svið fjölmiðlanna á nýju ári. Þetta staðfestir hann í samtali við Viðskiptablaðið. „Það er þá ekki fyrr en á næsta ári einhverntímann,“ segir Reynir.

Getur þú sagt mér nánar frá þeim áformum?

„Nei, ekki orð.“

Ekki á þessu stigi?

„Að sjálfsögðu ekki.“

Við höfðum spurnir af hugsanlegri nafngift, sem er Stund.

„Stundin. Nei ég get ekki sagt neitt, ekki spyrja mig að neinu. Ég er í viðkvæmum starfslokum við DV og má ekkert gera fyrr en það er búið. Þannig að ég er örugglega ekki að gera neitt fyrr en á næsta ári, þegar ég er laus þaðan.“

En þú hyggur þá á að opna eða stofna nýjan fjölmiðil á næsta ári?

„Þið eruð með frétt þar sem er haft mér þessi fleygu íslensku orð: „I‘ll be back!“ Það er óhaggað og verður þannig.“

Þú getur þá staðfest við mig að þú hyggst stofna nýjan fjölmiðil á næsta ári?

„Ég stend við það sem ég hef sagt við ykkur áður, en ég mun ekki brjóta gegn starfslokum varðandi DV að á meðan svo er er ég bara að gefa út bækur,“ segir Reynir Traustason.

Rétthafar að léninu Stundin.is

Á vef Isnic, sem heldur utan um skráningar og rétthafa léna með endinguna .is, má sjá að Jón Trausti Reynisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri DV, hefur tryggt sér rétt að léninu stundin.is . Skráningin er frá 16. september 2014, en Reyni Traustasyni var sagt upp sem ritstjóra DV í lok ágúst á þessu ári. Jón Trausti er sonur Reynis Traustasonar og hafa þeir starfað saman við fjölmiðlun til margra ára.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Reynir komið að máli við starfsmenn DV til að kanna hvort þeir hafi áhuga á að hefja störf á nýjum miðli, komi til þess. Séu þeir nú að íhuga málið sem er á viðkvæmu stigi, enda hafi bæði Reynir og starfsmennirnir skyldum að gegna við DV.

Skráningarskírteini stundin.is á ISNIC
Skráningarskírteini stundin.is á ISNIC
© Skjáskot (Skjáskot)

Jón Trausti Reynisson er skráður rétthafi að léninu stundin.is