Í aðdraganda kosninga liggur engin skilgreining á hugtakinu samfélagsbanki fyrir í umræðunni, en ýmsa lærdóma má draga af samfélagsbankaþjónustu á Íslandi fyrir hrun og tæknivæðingu í fjármálaþjónustu. Þetta er meginstefið í nýlegri grein Ásgeirs Jónssonar hagfræðings í vikulegu fréttabréfi Virðingar, „Svo það sé sagt“.

Ekkert fastmótað viðskiptalíkan

Ásgeir segir samfélagsbanka vísa í ótal áttir og að hugtakið eigi ekki við neitt eitt sérstakt viðskiptalíkan í fjármálaþjónustu. Til dæmis getur enska orðið social banking átt við um sparisjóði eða lánasamlög, einnig lánveitingar í gegnum samfélagsmiðla, og banka í ríkiseigu. Það er einnig notað um þann hluta af starfsemi venjulegra banka sem tengist samfélagslegsþjónustu, sjálfbærri þróun af einhverju tagi.

Þó svo að allt sé óljóst um það hvað ákall um samfélagsbanka felur í sér eru þær raddir að verða æ háværari sem vilja breyta stærsta banka landsins, Landsbankanum, í slíka stofnun.

Þverstæða félagshyggjufólks

Ásgeir segir að það virðist vera undirliggjandi forsenda í þessari umræðu að viðskiptabankastarfsemi sé áhættulaus fyrir skattgreiðendur og að ríkið geti boðið betri lánakjör en aðrar fjármálastofnanir, og að það rökstyðji ríkisrekstur.

„Landsmenn ættu að hafa lært mikilvæga lexíu í hruninu 2008 hvað ríkisábyrgð á fjármálastarfsemi er hættuleg – hvort sem hún er bein eða óbein. Þá getur það ekki talist annað en þverstæða að félagshyggjufólk skuli vilja binda 247 milljarða króna (sem er eigið fé Landsbankans miðað við 31. júní síðastliðinn) í áhættusamri fjármálaþjónustu í stað þess að leggja fjármunina í raunverulega samfélagslega innviði – skóla, sjúkrahús, vegi og fleira,“ segir Ásgeir.

Ásgeir segir að á árunum fyrir hrun hafi verið rekin umfangsmikil samfélagsbankastarfsemi hér á landi í kringum Íbúðalánasjóð og sparisjóðina, og að sú reynsla geymi mikilvæga lærdóma.

Skuldir Íbúðalánasjóðs sjálfkrafa skuldir ríkissjóðs

„[...] Báðar hliðar á efnahagsreikningi Íbúðalánasjóðs hafa valdið skattgreiðendum ómældu tjóni. Annars vegar er um að ræða útlánatap sem fellur á ríkið – eiganda sjóðsins – og hins vegar eru stórir óuppgreiðanlegir skuldabréfaflokkar útistandandi með 3,75% vaxtamiða (markaðskrafa HFF bréfa er nú á bilinu 3,18-2,73%) sem eru með ríkisábyrgð og ríkið á enn eftir að bíta úr nálinni með,“ segir Ásgeir í greininni.

„Þetta ætti að sýna fram á hvað viðskiptabankastarfsemi er í raun áhættusöm og hve ábyrgðarlaust það er að láta skattgreiðendur manna fremstu víglínu þegar útlánatöp sækja að með því að veita ríkisábyrgðir eða binda skattfé sem eigið fé í bankarekstri.“

Ásgeir ber saman áhættuna í kringum Íbúðalánasjóð og viðskiptabankana fyrir hrun. „[...] lykilatriði árangursríkra aðgerða Íslendinga í október 2008 var að setja innlán í forgang með neyðarlögum og láta bankana síðan falla en hluthafa og skuldabréfaeigendur taka á sig tjónið. Það var aðeins hægt af því að bankanir voru í einkaeigu – öfugt við Íbúðalánasjóð hvers skuldir eru sjálfkrafa skuldir ríkissjóðs,“ segir Ásgeir.

Ásgeir bætir við að áhættan hefur aukist eftir hrun, þar sem bæði almennur greiðsluvilji hefur minnkað og persónulegt gjaldþrot er mun auðveldara en áður.

Sparisjóðir ósamkeppnishæfir

Hvað sparisjóðina varðar féll tjónið vegna þeirra að mestu á stofnfjáreigendur og skuldabréfaeigendur, fyrir utan 22,4 milljarðar sem féllu á ríkissjóð. Sparisjóðirnir féllu vegna áhættusamra fjárfestinga, sem má síðan rekja til þess að gamla sparisjóðalíkanið var orðið ósamkeppnishæft. Ósamkeppnishæfnina má rekja til tæknivæðingar.

„[H]inir hefðbundnu starfsþættir [sparisjóðanna] – greiðsluþjónusta og innlánataka – voru tæknivæddir í upphafi tíunda áratugarins og lúta nú gríðarlegri stærðarhagkvæmni,“ segir Ásgeir. Aftur á móti byggi nútíma bankaþjónusta í auknum mæli á samlagningu margra fjölbreyttra þjónustuþátta í einn pakka sem bankinn getur boðið með hagstæðum hætti vegna breiddarhagræði .

„Við þetta gátu sparisjóðirnir ekki keppt nema að hætta að vera sparisjóðir og breyta sér í banka, sem er sama þróun og hefur átt sér stað á alþjóðavísu.“ Það urðu því endalok flestra sparisjóðanna að renna inn í viðskiptabankana eftir hrun, sem skilað hefur gríðarlegri hagræðingu.

Segir Ásgeir að það sé því mjög ólíklegt að breyting Landsbankans í samfélagsbanka/sparisjóð geti heppnast og að hann geti boðið betur en hinir bankarnir.

Miklar breytingar framundan

Ásgeir segir að það sé mjög ólíklegt að breyting Landsbankans í samfélagsbanka/sparisjóð geti heppnast og að hann geti boðið betur en hinir bankarnir. Ísland er enn yfirbankað og bankaþjónusta mun taka miklum breytingum næstu árin vegna tækniframfara. Ásgeir segist þó viss um að ný tækni geti skapað svigrúm til alls kyns samfélags-fjármála, en að það sé „hætta á því að gamla sparisjóðalíkanið eigi enn fremar undir högg að sækja.“