Svana Helen Björnsdóttir, rafmagnstæknifræðingur og framkvæmdastjóri Stika, segir reynslu sína af viðskiptum við það stuðningsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja hafa verið afar dapra á upphafsárum fyrirtækisins. Lýsti hún þessu á fundi um stuðningsumhverfi nýsköpunar sem fram fór á Grand Hótel í gær.   „Fyrir tíu árum síðan gerðum við fyrstu tilraunina til að leita eftir stuðningi inn í þetta stuðningsumhverfi. Þetta hafa verið stanslausar móaferðir síðan. Þetta eru hlaup fram og aftur og þetta er fyrsti fundurinn sem ég veit til að sé haldinn þar sem þekkingu um þetta stuðningsumhverfi er miðlað til okkar allra á einum stað.” Hún sagði að forsvarsmenn Stika hafi sótt um stuðning Tækniþróunarsjóðs í fyrsta sinn fyrir tíu árum.   „Við misstum mjög trú á stuðningsumhverfinu eftir þær viðtökur sem við fengum þar. Það var ekki bara menntahroki heldur mjög einkennileg afstaða sem þar kom fram.”   Hún segist því ekki vilja halda því fram að ástandið sé svona í dag. Það hafi þó ekki verið fyrr en Útflutningsráð hafði samband við þau 2004 að hjólin fóru að snúast.   „Þar er mjög gott fólk sem vakir fyrir okkur sprotunum. Þau hafa verið að skrifa niður hjá sér nöfn og fyrirtæki og eru að leita eftir tækifærum til að koma þessum fyrirtækjum til aðstoðar.”   Síðan hefur fyrirtækið vaxið upp í það vera með 22 starfsmenn, útibú í London og samstarfsaðila víða um Evrópu.