Fyrir aðalfundi SPRON, sem haldin var í dag, lá tillaga um að breyta stofnfjárbréfunum úr 25.000 króna einingum í krónueiningar. Með þessari breytingu er fetað inn á þá braut sem notuð er í flestum hlutafélögum, þ.e. að miða hlutina við eina krónu. Með þessu er ætlað að auðvelda viðskipti með stofnbréf.

Þessi breyting hefur þýðingu þegar haft er í huga að til þess að gerast nýr stofnfjáreigandi í dag þarf að reiða fram yfir 330 þúsund krónur til að kaupa eitt stofnfjárbréf. Með krónueiningum verður unnt fyrir þá sem ekki geta reitt fram svo háar fjárhæðir að eignast hlut í SPRON. Einnig verður unnt að auka stofnfé í smærri skrefum í framtíðinni en nú er hægt, því aukning verður ævinlega að gerast með margfeldi stofnfjárbréfa.

Fyrir fundinum lá jafnframt tillaga um að gefa heimild til að auka stofnfé enn frekar. Eftir að verðmæti stofnfjárbréfa hefur verið breytt úr 25.000 kr. hvert bréf, í eina krónu, fjölgar stofnfjárbréfum í 2.172.000.000 bréf. Hver sem á nú eitt bréf að nafnvirði 25.000 kr., eignast í staðinn 25.000 einnar kr. bréf. Tillagan gengur út á að heimila aukningu úr 2.172.000.000 bréfum í 5.000.000.000 bréfa. Þetta þýðir að stjórninni verður heimilt að auka innborgað stofnfé úr 3,9 milljörðum í 9,1 milljarð ef öll heimildin yrði nýtt.

"Þetta er rúm heimild, en hafa ber í huga að mikil þróun er að eiga sér stað á fjármálamarkaði og það er mikilvægt að geta brugðist hratt við ef stjórnin telur að fyrir hendi séu áhugaverð tækifæri til að efla rekstur SPRON," sagði Hildur Petersen, stjórnarformaður SPRON í ræðu sinni á aðalfundinum.