Í kjölfar fjármálakreppunnar í október sl. hafa hagsmunaaðilar unnið að því að leysa málefni Portusar hf., byggingaraðila Tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar, og tryggja þannig framgöngu verkefnisins.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá Austurhöfn, NBI og Landsbanka Íslands en eins og fram hefur komið undanfarið og fjallað hefur verið um hér á Viðskiptablaðinu hafa framkvæmdir við byggingu hússins tafist nokkuð og óvíst er með framhaldið.

Í tilkynningunni kemur fram að allir þeir sem að málinu koma hafi frá upphafi haft fullan vilja til að finna því farsæla lausn og unnið ötullega að framgangi þess á undanförnum vikum.

„Lausn málsins hefur dregist sökum umfangs verkefnisins og flókinna hagsmunatengsla málsaðila,“ segir í tilkynningunni.

„Allt kapp hefur verið lagt á að ná fram ásættanlegri tillögu sem hefur það að markmiði að tryggja byggingu Tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar.“