Slitastjórn Byrs og fulltrúar íslenska ríkisins vinna að því að koma Byr hf. í hendurnar á kröfuhöfum. Flestirþeirra eru samþykkir þeirri leið en hluti erlendra kröfuhafa má ekki taka við hlutafé í fjármálafyrirtæki.

Unnið er að því að koma öllu hlutafé í Byr hf., hlutafélags sem reist er á grunni Byrs sparisjóðs, í hendurnar á kröfuhöfum sparisjóðsins. Íslenska ríkið myndi þá eignast undir 10% hlut í bankanum vegna þeirra 900 milljóna króna sem það hefur lagt honum til.

Eva B. Helgadóttir, formaður slitastjórnar Byrs, segir að það yrði óskastaða ef kröfuhafarnir tækju hlutaféð í Byr. „Það er einfaldasta leiðin og þá þarf ekki að meta allar eignirnar á milli.“ Að sögn Evu er þó mikið af lausum endum sem á eftir að hnýta áður en hægt verður að ganga frá málinu. Verið sé að reyna að klára samningsviðræður og vonir standi til að þær geti klárast á næstu vikum. Byr myndi þá starfa áfram sem viðskiptabanki með fimm útibú á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.

Samningsviðræður hafa staðið yfir í nokkrar vikur milli ríkisins annars vegar og slitastjórnar Byrs hins vegar, en slitastjórninni til ráðgjafar er óformlegt kröfuhafaráð. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að það hafi haft mikil áhrif á þá niðurstöðu sem í vændum er. Lítið beri á milli samningsaðila.

-Nánar í Viðskiptablaðinu.