Bandaríski seðlabankinn greip aftur til aðgerða á markaði í gær þegar hann tilkynnti um að aðgengi fjármálastofnana að fé bankans yrði aukið enn frekar og bankinn myndi taka við enn fjölbreyttari veðum og lánin yrðu veitt til lengri tíma. Jafnframt var tilkynnt um að þeir gjaldeyrisskiptasamningar sem gerðir voru milli helstu seðlabanka beggja vegna Atlantsála síðastliðin desember yrðu rýmkaðir enn frekar til þess að stemma stigu við lausafjárþurrð.

Með aðgerðunum fá þær fjármálastofnanir sem eiga í beinum viðskiptum með skuldabréf við bandaríska seðlabankann (e. primary dealers) aðgengi að 200 milljörðum Bandaríkja dala til viðbótar við þá 200 milljarða sem tilkynnt var um á föstudaginn. Lán seðlabankans verða boðin út vikulega og eru til 28 daga. Auk hefðbundinna veða mun seðlabankinn taka við veðum sem tengjast fjármálagjörningum í ríkistryggðum fasteignalánum auk gjörninga í fasteignalánum á einkamarkaðnum sem hafa gott lánshæfismat.

Aðgerðir seðlabankans féllu í frjóan jarðveg fjárfesta en í kjölfar þess að tilkynnt var um þær hækkuðu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum og Evrópu og verð á bandarískum ríkisskuldabréfum lækkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .