Óttar Guðjónsson framkvæmdastjóri Lánasjóðs Sveitarfélaga og hluthafi í Glitni HoldCo segir nýtt hvatakerfi Glitnis HoldCo vera mjög sérstakt, en Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag. „Ég sem hluthafi bað um að fá starfskjarastefnuna og fékk hana senda, þar var ekkert um þetta. Ég fékk þetta bara svo sent þegar ég bað um öll gögn sem yrðu lögð fram. Það er eins og þeir hafi reynt að halda þessu undir radarnum,“ segir Óttar.

Óttar segist ætla að kjósa gegn þessu hvatakerfi á fundinum sem verður haldinn á miðvikudaginn. „Mér finnst þetta mjög frekt. Það er alveg hægt að fá fólk til að vinna þessa vinnu fyrir venjuleg laun. Það er alveg yfirgengilegt að gefa einhverjum fámennum hóp stóran hluta af leyfunum af þrotabúinu.“

Í hvataáætluninni er sérstaklega tekið fram að markmið hennar er að samræma hagsmuni hluthafa og stjórnenda, þ.e.a.s. gefa stjórnendum beina fjárhagslega hagsmuni af því að hámarka endurheimtur búsins.  „Ég er alveg fylgjandi bónuskerfum en mér finnst þetta vera út fyrir allt sem er einhver þörf á. Það væri í lagi ef þeir myndu deila upphæðinni með tíu, eins og í tillögu minni með stjórnarlaunin.“ Óttar vísar þá til tillögu sinnar sem greint var frá í Viðskiptablaðinu þann 4. mars sl., en þar vildi hann lækka laun stjórnarmanna. „Það þarf ekki að borga fólki hundruð milljóna fyrir að mæta í vinnuna, og vinna vinnuna sína. Ekki bara er stjórnin með 50 milljónir króna í laun á ári, sem er tíu sinnum of mikið, þá bæta þeir þessu við og reyna að lauma þessu inn.“

Spurður hvort að hann muni leggja fram breytingartillögu á fundinum segist hann ekki vita hvort hann sé of seinn til þess. „Ég held að ég sé orðinn of seinn, ég sá þessa tillögu ekkert fyrr en í dag.“