Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur undirritað reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð, sem hefur það að markmiði að lækka byggingarkostnað. Með þessu er verið að að nokkru leyti verið að koma til móts við ákall verktaka, sem hafa lengi gagnrýnt hvað reglugerðin sé stíf og ósveigjanleg.

Enn fremur er verið að ýta undir íbúðafjárfestingu, sem dróst saman um 3,1% í fyrra. Hefur lítið framboð íbúða meðal annars haft þau áhrif að fasteignaverð hefur hækkað mikið og nam hækkunin í fyrra að jafnaði 9,4%. Þetta hefur valdið því að ungt fólk hefur átt í erfiðleikum með að kaupa sína fyrstu íbúð.

Vandinn endurspeglast ágætlega í ummælum, sem Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins, lét falla í Viðskiptablaðinu síðasta haust. Þá sagði hann að þær reglugerðir sem byggt væri eftir og uppbygging á lóðarverði væri með þeim hætti að verktakar hefðu hvata til að byggja stórar og dýrar íbúðir.

Samkvæmt breytingunni sem ráðherra skrifaði undir eru kröfur um lágmarksstærðir rýma í íbúðum felldar brott en í stað þess sett inn markmið, sem veitir ákveðið frelsi við útfærslu hönnunar. Breytingarnar miða fyrst og fremst að því að auka sveigjanleika við gerð íbúðarhúsnæðis.

„Breytingarnar lúta einnig að því að minniháttar framkvæmdum sem undanþegnar eru byggingarleyfi fjölgar og verða þær í stað þess tilkynningarskyldar," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. „Þá eru gerðar ákveðnar breytingar varðandi bílastæði fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhúsnæði, rýmisstærðir í íbúðarhúsnæði, sorpgeymslur og loftræstingu íbúða."

Í ráðuneytinu er einnig hafinn undirbúningur að frumvarpi tila um breytingu á mannvirkjalögum og skipulagslögum. Í frumvarpinu verður lögð áhersla á að einfalda stjórnsýslu byggingarmála með það að markmiði að lækka byggingarkostnað enn frekar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .