Tolla og skattyfirvöld í Bretlandi (HMRC) telja sig hafa komið upp um aðgerðir stórra kvikmyndaframleiðenda til að komast hjá því að greiða skatta sem nema um 820 milljón pundum.

Avatar, Life of Pi og Die Hard 4

Byggja ásakanirnar á því að kvikmyndafyrirtækin hafi reynt að nota gervitap á móti hagnaði til að komast hjá skattheimtu. Þær myndir sem fyrirtækin hafa framleitt og ætluðu að komast hjá því að greiða fulla skatta af eru meðal annars Avatar, Life of Pi og Die Hard 4.

Fyrirtækin heita Ingenious Film Partnership og Icebreaker, en í báðum tilvikum reyndu fyrirtækin að tryggja að þau hefðu meira frádráttarbært frá skatti en þau raunverulega fjárfestu í myndunum.

Gervitap sett á móti tekjum

Í tilviki Ingenious hélt fyrirtækið því fram að þeir hefðu fjármagnað 100% af öllum kostnaði við framleiðslu myndanna eða leikjanna sem um er rætt. Mestallur kostnaðurinn var síðan afskrifaður á fyrsta ári, sem gaf þeim möguleikann á að setja mikið gervitap á móti öðrum tekjum. En einungis 30% af kostnaðinum kom til með beinni fjármögnun, restin kom til einungis með bókhaldsaðgerðum.

Í tilviki Icebreaker hélt fyrirtækið fram að frádráttarbær kostnaður væri margfalt hærri en sá peningur sem þeir settu í fjármögnun kvikmyndanna.

Lögfræðilegar aðgerðir þýða einungis meiri kostnað

Jenni Granger, framkvæmdastjóri hjá HMRC segir „Þetta voru sumar af stærstu kvikmyndum allra tíma, og aðgerðirnar fólust í því að fólk var að fara fram á meiri skattendurgreiðslur en þau fjárfestu í upphafi. Við höfum alltaf sagt að ef eitthvað hljómar of gott til að vera satt, þá er það eflaust rétt. Í þessu tilviki munu langar lögfræðiaðgerðir einungis þýða að fjárfestar munu þurfa að greiða enn hærri upphæðir í vexti og lögfræðikostnað.“

Talið er að Ingenious muni áfrýja ákvörðuninni.