*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 4. apríl 2018 19:08

Reynt verði á fullveldisréttinn í EES

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir alþingismenn ekki mega láta undan hræðsluáróðri um ACER og þriðju orkutilskipun ESB.

Ritstjórn
Óli Björn Kárason er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að EES samningurinn geri ráð fyrir að fullveldisréttur Íslands sé í fullu gildi í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er innleiðing þriðju orkumálatilskipunar Evrópusambandsins í innri markað Evrópska efnahagssvæðisins og umfjöllun Viðskiptablaðsins um hana.

Segir Óli Björn að innan skamms þurfi Alþingi að taka afstöðu til þess hvort falla eigi frá stjórnskipulegum fyrirvara vegna tilskipunarinnar sem gert er ráð fyrir samkvæmt EES samningnum ef lagabreytingar eru nauðsynlegar. Norska Stórþingið hefur þegar samþykkt orkutilskipunina.

„Í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins í síðustu viku er fullyrt að þriðja orkutilskipun Evrópusambandsins hafi lítil áhrif hér á landi – mikilsverðir orkuhagsmunir séu ekki í húfi,“ segir Óli Björn réttilega að blaðið hafi eftir utanríkisráðuneytinu.„Hér er ekki rúm til að draga fram hversu hæpin (í besta falli) fullyrðingin er.“

Sæstrengur myndi færa okkur undir ACER

Líkt og Viðskiptablaðið benti á í sinni umfjöllun segir Óli Björn að ef af lagningu sæstrengs milli Íslands og Evrópusambandsins, myndi íslenski orkumarkaðurinn falla undir valdsvið nýrrar eftirlitsstofnunar sambandsins um orkumál, ACER, samkvæmt tilskipuninni.

„ACER fær meðal annars vald til að úrskurða í ágreiningsmálum. (Sæstrengur milli Íslands og Bretlands er á lista Evrópusambandsins yfir mikilvæg innviðaverkefni í orkumálum.),“ segir Óli Björn en hann bendir á að hvergi í heiminum sé meiri raforkuvinnsla á íbúa heldur en hér á landi.

„Að fullyrða að skipulag orkumála, hvernig og hvort við aðlögum íslenskt regluverk að orkutilskipunum Evrópusambandsins, hafi ekki mikil áhrif hér á landi, er í besta falli sérkennilegt og í versta falli hættulegt.“

Fyrirvarinn væri merkingarlaus ef rétt reyndist

Óli Björn vitnar í að Viðskiptablaðið hafi eftir sérfræðingum að það hafi ófyrirséðar afleiðingar fyrir EES samstarfið ef Alþingi stilli sér á móti pakkanum.

„Ef rétt er að það hafi „ófyrirséðar afleiðingar“ ef Alþingi aflétti ekki fyrirvara gagnvart tilskipunum Evrópusambandsins (í þessu tilfelli vegna þriðju orkutilskipunarinnar) þýðir það í raun að stjórnskipulegur fyrirvari er merkingarlaus. Þjóðþing EFTAríkjanna eru áhrifalaus – neydd til að skrifa undir tilskipanir því annað hefði „ófyrirsjáanlegar afleiðingar“ á EES-samninginn,“ segir Óli Björn og segir að þar með væri ákvæði 103 greinar EES-samningsins dauður bókstafur.

„Þessi túlkun á ákvæðum samnings EFTA og ESB getur varla verið rétt enda um leið verið að halda því fram að þjóðþing Noregs, Liechtenstein og Íslands séu aðeins viljalaus verkfæri sem neydd eru til að fara eftir forskrift embættismanna. Sem þingmaður get ég aldrei tekið undir slíkan skilning á eðli EES-samningsins.“

Myndi falla að helstu gagnrýninni á EES ef skapað svigrúm til að hafna innleiðingum

Segir Óli Björn að alþingismenn verði að vega og meta hvernig hagsmunir Íslands verði best tryggðir þegar fyrir þinginu liggi að innleiða tilskipunina.

„Þetta eru nokkrar þeirra spurninga sem þingmenn þurfa að svara án þess að hræðast áróður eða hótanir um að það hefði „ófyrirsjáanlegar afleiðingar“ ef þeir ákveða að nýta sér fullveldisréttinn, sem gengið er út frá að sé í gildi, meðal annars í EES-samningnum sjálfum,“ segir Óli Björn og vísar í gagnrýni Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra hvernig tilskipanir samningsins hafi verið innleiddar hingað til.

„[A]ldrei [hefur] tekist að hrinda nægilega vel í framkvæmd „sjálfstæðri stefnu í samskiptum við ESB á grundvelli EES-samningsins“. Í dagbókarfærslu í febrúar hélt Björn því fram að verði viðurkennt „meira svigrúm til að hafna innleiðingu ESB-reglna fellur það að helstu gagnrýninni á EESfyrirkomulagið eins og það er nú – þetta svigrúm er þó einskis virði sé aldrei gerð tilraun til að nýta það og henni fylgt eftir á skipulegan hátt“.“