Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, telur líklegt að hægt sé að samþætta tillögurnar tvær sem lagðar hafa verið fram á Alþingi um umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Þetta kom fram á Alþingi í dag.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tekur í sama streng og Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar þingsins, segir sömuleiðis í samtali við Viðskiptablaðið að fullur vilji sé til þess innan stjórnarflokkanna „að ná einhverri samstöðu með stjórnarandstöðunni í málinu."

Samkvæmt þessu er líklegt að reynt verði að samþætta tillögurnar þegar ESB-tillaga stjórnarinnar fer til umfjöllunar í utanríkismálanefnd eftir fyrstu umræðu á þingi. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu ekki fráhverfir slíkri niðurstöðu.

Telur að hægt verði að ljúka vinnunni fyrr

Össur mælti fyrir á Alþingi í gær tillögu stjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Sama dag lögðu þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tillögu um undirbúning mögulegrar umsóknar um aðild að ESB.

Í síðarnefndu tillögunni er lagt til að utanríkismálanefnd þingsins setji í fyrsta lagi saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við ESB og vinni í öðru lagi að vegvísi að mögulegri aðildarumsókn sem taki m.a. til umfjöllunar öll álitamál varðandi upphaf aðildarviðræðna og hvernig að þeim skuli staðið. Þessari vinnu á að ljúka eigi síðar en 31. ágúst nk.

Össur sagði á Alþingi í morgun að vel væri hægt að ljúka þeirri vinnu, sem lögð er til í tillögu Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, á innan við þremur vikum. Fyrra verkefninu á fáeinum dögum og því síðara á hálfum mánuði. Gögn um þessi mál liggi þegar fyrir.

Fyrri umræða um tillögu stjórnarinnar um ESB stendur enn yfir á Alþingi. Vonir standa til að henni verði lokið í dag.