,,Fyrst og fremst er þetta vettvangur til að kynna íslenska hönnun fyrir íslenskum og erlendum markaði.“ Þetta segir Þórey Eva Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Reykjavík Fashion Festival.

Reykjavík Fashion Festival var haldin í sjöunda skipti daganna 12 til 15.mars. Hönnuðurnir sem komu fram á hátíðinni í ár voru Jör, Sigga Maija, Magnea, Scintilla, Another Creation og Eyland. Búist var við að um 2500-3000 manns myndu sækja hátíðina í ár og talið er að í kringum 30% séu útlendingar.

,,Mikill ávinningur er fyrir íslenska hönnuði að taka þátt markaðslega séð. Það er mikill kostnaður í því að byggja upp vörumerka og með því að taka þátt fá hönnuðir gríðarlega athygi út á við." Þórey segir jafnframt að það sé gríðarlega miklvægt fyrir Ísland að halda uppi svona hátíð þar sem hún snýst ekki bara um það að kynna íslenska hönnun heldur líka land og þjóð.

Í ár fór RFF í samstarf við KPMG með það að markmiði að efna til samstarfs við þau fyrirtæki sem starfa í greininni og reyna að safna hjá þeim upplýsingum um rekstur, afkomu og fleiri þætti. En mikil þörf er að fá þessar upplýsingar svo hægt sé að greina iðnaðinn betur samkvæmt Þóreyju.