Breski frumkvöðullinn og viðskiptajöfurinn Richard Branson íhugar nú að selja hlut sinn í breska flugfélaginu Virgin Atlantic.

Frá þessu er greint á vef Telegraph en Branson stofnaði flugfélagið fyrir 27 árum síðan. Á vef Telegraph kemur fram að Branson leggi áherslu á að Virgin Atlantic lifi af harðari samkeppni við stærri flugfélög sem byggt hafa upp náið samstarf síðastliðin ár.

Branson fékk á síðasta ári þýska bankann Deutsche Bank til að vinna úttekt fyrir sig um möguleika Virgin Atlantic eftir að breska flugfélagið British Airways og bandaríska flugfélagið American Airlines hófu náið samstarf um ferðir yfir Atlantshafið, samstarf sem felst í svokölluðu code share sem þýðir að viðskiptavinir félaganna geta bókað tengiflug í gegnum annað félagið, nýtt vildarpunkta hjá báðum félögum og svo frv. Branson hafði mikið beitt sér gegn samstarfinu en varð undir í þeirri baráttu.

„Samkeppnisyfirvöld hafa af mikilli visku sinni leyft þessum risum að mynda bandalag,“ hefur Telegraph eftir Branson.

„Til að vernda Virgin Atlantic til langs tíma, þurfum við að sjá til þess að við höfum styrk og bolmagn til að starfa áfram.“

Þá segir Branson að hann lítið á félagið sem nokkurs konar barn sitt en hann vilji tryggja að félagið sé starfhæft næstu 50 árin.

Eignarhaldsfélagið Virgin Group, sem er í eigu Branson, á 51% hlut í flugfélaginu en 49% hlutur er í eigu Singapore Airlines. Þá hefur bandaríska flugfélagið Delta Air Lines verið orðað við möguleg kaup á hlut Branson í félaginu en aðspurður segir Branson að margir hafi sýnt áhuga og tíminn muni leiða í ljós hver niðurstaðan verður.