Japanski skrifstofuvöruframleiðandinn Ricoh hefur keypt þann hluta tölvufyrirtækisins IBM sem framleiðir sérhæfða prentara fyrir atvinnulífið.

Ricoh reiðir fram 725 milljónir Bandaríkjadala fyrir 51% í fyrirtækinu en endalegt verð mun ráðast eftir þrjú ár. Eftir kaupin verður Ricoh stærsti framleiðandi á ört stækkandi markaði fyrir sérhæfða prentara sem eru hannaðir til þess að prenta mikið magn á stuttum tíma.

Kaupin er þau síðustu í röð fjárfestinga japanskra fyrirtækja á erlendri grund en sökum góðrar afkomu og góðs aðgengis að fjármagni hafa þau verið fyrirferðamikil í fjárfestingum erlendis.