Matvælastofnun hefur staðfest að riðuveiki hafi komið upp á búi í Skagafirði. Er þetta fjórða tilfelli hefðbundinnar riðu sem greinist á Norðurlandi vestra síðan í febrúar 2015. Frá því árið 2010 þangað til þá hafði ekki greinst riða í landinu.

Nú er sláturtíð að hefjast og réttir eru annað hvort nýbúnar eða víða enn í gangi, má sjá lista og dagsetningar yfir það hér .

Fénu fargað

Upplýsingarnar um riðuveikina koma fram í fréttatilkynningu frá Matvælastofnun sem vinnur nú að öflun upplýsinga og undirbúningi aðgerða, sem felast í förgun fjár, þrif og sótthreinsun.

Úttekt á búinu og öflun faraldsfræðilegra aupplýsinga og úttektar á búinu er í höndum Héraðsdýralæknis.

Þekkt riðusvæði

„Í síðustu viku fékk bóndinn í Brautarholti í Skagafirði grun um riðuveiki í kind og hafði samband við héraðsdýralækni. Kindinni var lógað og sýni sent til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum, sem staðfesti á miðvikudag í þessari viku að um hefðbundna riðuveiki væri að ræða,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Búið er í Skagahólfi en þar hefur riðuveiki komið upp á ellefu búum á undanförnum 20 árum og þar af á fjórum búum í nágrenni Varmahlíðar, þannig að segja má að um þekkt riðusvæði sé að ræða. Á þessu búi var síðast skorið niður vegna riðu árið 1987. Á bænum er nú um 290 fullorðið fé.“

Riða á undanhaldi

Á hverju ári fram til ársins 2010 greindist riða á nokkrum bæjum á landinu á ári hverju, en ekkert á árunum 2011,2012 og 2013.

„Riðuveikin er því á undanhaldi en ekki má sofna á verðinum. Á undanförnum árum hafa sýni verið tekin við slátrun úr u.þ.b. þrjú þúsund kindum á ári,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Jafnframt hafa bændur verið hvattir til að senda hausa til Keldna af fé sem drepst eða er lógað heima vegna vanþrifa, slysa eða sjúkdóma, eða hafa samband við dýralækni um að taka sýni úr slíku fé. Aukin áhersla er á að fá slík sýni þar sem það eykur líkur á að finna riðuna.“