Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF, segir hátíðina velta um 50 milljónum króna á hverju ári og þar af skili miðasala um 20% eða 10 milljónum króna. „Hlutur hins opinbera er um það bil 15 milljónir króna og í ár fengum við í annað sinn MEDIA styrk frá Evrópusambandinu sem nemur um 6 milljónum.

Ég tel nauðsynlegt að treysta grundvöllinn því það er erfitt að reiða sig á erlenda styrki eða fyrirtæki hér, sérstaklega eins og umhverfið er núna. Ég tel að hið opinbera verði að fjármagna hátíð sem nemur um það bil helmingi af tekjum ef þetta á að ganga til lengri tíma,“ segir Hrönn og bætir við að mikilvægt sé að halda í það góða fólk sem starfar við hátíðina.

„Það þarf a.m.k. þrjá í fullu starfi til þess að ná að halda vel utan um hlutina en með viðburði sem þessum verður til þekking og sambönd sem mikilvægt er að halda í. Fyrirtæki hafa sýnt okkur mikinn samstarfsvilja, ekki síst fyrirtæki í ferðaþjónustu sem sjá möguleikana í framtíðinni. Við erum með fimm svokallaða bakhjarla: Norræna húsið, Iceland Express, CenterHotels, Símann og DHL.“

Hrönn segir hátíðina vera atvinnuskapandi. „Nú eru um 30 manns á launum en auk þess starfar að hátíðinni í ár hátt í 200 sjálfboðaliðar víða að úr heiminum.“