Hlutabréf vestanhafs hækkuðu hressilega í dag í kjölfar uppgjöra umfram væntingar frá fyrirtækjum á borð við JPMorgan Chase og Intel. Forstjóri JPMorgan, Jamie Dimon, blés fjárfestum kjark í brjóst er hann sagði að nú sæi fyrir endann á undirmálslánakrísunni sem hefur orsakað dýfu á hlutabréfamörkuðum um heim allan á síðustu mánuðum.

Standard & Poor's 500-vísitalan hækkaði um  1,8%, Dow Jones hækkaði um 1,6% og Nasdaq hækkaði um 2,5%.

Hagnaður JPMorgan dróst saman um 50% frá sama tímabili í fyrra, en það var engu að síður umfram væntingar. Fjárfestingabankinn, sem er sá þriðji stærsti í Bandaríkjunum, tók nýverið yfir starfsemi Bear Stearns og greiddi fyrir 10 dollara á hlut.