Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2004 var 101,5 milljónir, en 37,5 milljón króna tap var árið áður. Ársreikningurinn samanstendur af ársreikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélags þess Reykjagarðs hf. Samanburðarfjárhæðir ársins 2003 í ársreikningnum eiga eingöngu við rekstur og efnahag Sláturfélags Suðurlands svf. Eigið fé Sláturfélagsins er um 1.263 milljónir og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 34%. Lækkun eiginfjárhlutfalls samstæðu milli ára skýrist af innkomu dótturfélags í uppgjörið.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 4.445 milljónir á árinu 2004, en 3.496 milljónir á árinu 2003. Velta samstæðunnar jókst því um 27%, og er aukningin að stórum hluta til kominn vegna innkomu dótturfélags í samstæðuuppgjörið.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 4.130 milljónum á árinu 2004 samanborið við 3.286 milljónir árið áður og jukust um tæp 26%. Afskriftir rekstrarfjármuna voru 216 milljónir og aukast um 40%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 99 milljónir, en 55 milljónir króna árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 33 milljónir, en 32 milljónir árið áður. Seld var hlutabréfaeign í Íslenskum Markaði hf. og í Gripið og greitt hf., og nam söluhagnaður vegna þess 53 milljónum króna. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um tæpar 17 milljónir en árið áður 57 milljónir. Hagnaður af rekstri tímabilsins var 101,5 milljón en 37,5 milljón króna tap árið áður.

Veltufé frá rekstri var 145 milljónir árið 2004, samanborið við 189 milljónir frá rekstri árið 2003.

Í árslok 2004 voru heildareignir samstæðu Sláturfélags Suðurlands 3.689 milljónir og höfðu hækkað um 844 milljónir frá áramótum, aðallega vegna innkomu dótturfélagsins í samstæðuuppgjörið. Skammtímaskuldir voru 732 milljónir, langtímaskuldir 1.694 milljónir og eigið fé 1.263 milljónir. Veltufjárhlutfall var 1,8 í árslok 2004, en 1,4 árið áður. Unnin ársverk á árinu 2004 voru 431 en 344 árið áður.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 182 milljónir en fyrir alls 100 milljónir árið áður. Vegna fasteigna var varið 68 milljónum, 88 milljónum til kaupa á framleiðsluvélum og tækjum, aðallega fyrir kjötvinnsluna á Hvolsvelli og 9 milljónir vegna bifreiða. Á árinu voru seldir fastafjármunir fyrir 132 milljónir. Keypt voru hlutabréf í Hollu og Góðu ehf. og Guldfoss A/S að fjárhæð 31 milljón og seld hlutabréf fyrir 92 milljónir. Til að bæta afkomu afurðardeildar var sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri aflagt í lok árs.

Í árslok 2004 sameinaði Sláturfélag Suðurlands svf. dótturfélag sitt SS Eignir ehf., Reykjagarði hf. sem m.a. rekur kjúklingasláturhús og kjötvinnslu á Hellu. Samhliða sameiningunni var hlutafé Reykjagarðs hf. aukið og er að því loknu 195,7 milljónir. Eftir aukningu hlutafjár á Sláturfélagið 51% í Reykjagarði hf., en áður var eignarhlutinn 100%.

Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag. Prentaður ársreikningur verður tilbúinn til dreifingar eigi síðar en 30. mars n.k., jafnframt því sem hægt verður að nálgast hann á heimasíðu félagsins.