*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Innlent 21. apríl 2018 15:04

Ríflega 400 gráðu hiti

Djúpborunarverkefni á vegum HS Orku á Reykjanesi gefur væntingar um meiri orkuvinnslu, minni umhverfisáhrif og minni kostnað.

Ritstjórn
Forstjóri HS Orku, Ásgeir Margeirsson, heldur fyrirlestur á jarðhitaráðstefnu IGC sem haldin er 24. til 27. apríl. Fyrirlesturinn hefur yfirskriftina: Iceland Deep Drilling Project: A Better Tomorrow.
Haraldur Guðjónsson

Kostnaður við DEEPEGS djúpborunarverkefnið hér á landi hefur verið um tveir milljarðar íslenskra króna þegar allt er talið segir Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku, sem stýrir verkefninu. Til viðbótar er lagt upp með að borað verði í Frakklandi líkt og sagt er frá í viðtali við Hjalta Pál Ingólfsson annars staðar í blaðinu.

„Þetta er verkefni sem kostar orðið vel á annan milljarð króna, en stærsti styrkurinn kemur frá Evrópusambandinu og svo er mikil þátttaka hjá Statoil. Auk þess kemur Íslenska djúpborunarverkefnið að þessu, en það er samstarfsvettvangur okkar hjá HS Orku, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkustofnunar, til að deila þekkingu, reynslu og lærdómi,“ segir Ásgeir. Auk þess lagði HS Orka til eina 2.500 metra djúpa holu þaðan sem haldið var áfram að bora.

„Síðan borgum við auðvitað líka nokkurn hluta af þessu, en ef við tökum heildarkostnaðinn, auk verðmæti þessarar holu, þá getum við sagt að verkefnið kosti um 2 milljarða þegar allt er tekið saman. Stóra hugmyndin er sú að með því að bora dýpra er verið að leita eftir heitari vökva undir hærri þrýstingi, sem þýðir að hann er orkuríkari en hefðbundinn jarðhitavökvi, ef það tekst að ná honum upp á yfirborðið.

Í hverju kílói af vökva, sem er þá mest gufa, er meira orkuinnihald, sem gefur væntingar um orkuríkari holur. Þá er mögulegt að bora færri holur til að ná sömu orku sem aftur þýðir að snerta þarf minna land og því verða umhverfisáhrifin minni og vonandi verður kostnaðurinn við orkuframleiðsluna á endanum lægri.“

Þekktar lausnir nýttar á nýjan hátt

Á Jarðhitaráðstefnunni IGC, sem haldin er í Hörpu dagana 24. til 27. apríl mun Ásgeir halda erindi um hvernig DEEPEGS verkefnið horfir við HS Orku. „Verkefnið er gríðarlega flókið og unnið er við aðrar aðstæður en í hefðbundinni og þekktri jarðhitanýtingu. Því þarf að hanna allan búnað og aðferðir frá grunni til þess að taka við vökva á hærri þrýstingi og hærra hitastig heldur en hefð- bundið er,“ segir Ásgeir þó hann vilji ekki fara nánar út í það í hverju lausnirnar felist.

„Slíkur þrýstingur er út af fyrir sig ekki óþekkt viðfangsefni almennt séð í iðnaði, heldur eru þetta að hluta til þekktar lausnir sem er verið að púsla saman. Það eru til háþrýstikerfi þar sem gas er brennt til að framleiða gufu sem nær miklum þrýstingi svo það er ekkert óþekkt í því, þó þær lausnir hafi ekki verið notaðar með beinum hætti í jarðhita áður.“

Nálgast 5 kílómetra dýpi

Ásgeir segist alveg geta séð fyrir sér að hægt verði að bora enn dýpra en nú er holan komin niður í 4.650 metra dýpi. „Holan er að minnsta kosti 427 gráðu heit og væntanlega getur hitastigið orðið enn hærra,“ segir Ásgeir.

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is