Rekstartekjur Tæknivals námu 2.530 m.kr. en rekstrargjöld án afskrifta námu 1.658 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBIDTA) er 871 m.kr. Afskriftir nema 46 m.kr. og hrein fjármagnsgjöld námu um 72 m.kr. Hagnaður eftir fjármagnsgjöld og tekjuskatt er 607 m.kr. Eigið fé félagsins í lok árs 2004 var jákvætt um 250 þ.kr.

Heildarskuldir félagsins eru 661 m.kr í lok ársins 2004 að meðtöldu láni eigenda upp á 75 m.kr. Sé lán eigenda undanskilið þá hafa skuldir við almenna lánadrottna lækkað úr 2.037 m.kr. í 586 m.kr. eða alls um 1.451 m.kr. Þar af eru langtímaskuldir félagsins nú 389 m.kr. en voru áður 844 m.kr. og skammtímaskuldir lækka úr 892 m.kr. í 272 m.kr. á árinu. Veltufjármunir félagsins í árslok námu 340 m.kr. en voru 844 m.kr. í upphafi ársins.

Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum á árinu nam -27 m.kr. Í reikningum félagins hafa skammtímakröfur og birgðir verið færðar niður til að mæta almennri tapsáhættu.

Veltufé til rekstar nam -244 m kr. Verðmæti viðskiptavildar er færð 0 kr. í reikningum félagsins en endurspeglar ekki þau verðmæti sem felst í viðskiptavild félagsins að mati stjórnar Tæknivals hf.

Í lok janúar 2004 var gengið frá sölu á verslanasviði félagsins til Skífunnar ehf. Mikill rekstrarkostnaður féll til við þessa breytingu þar sem Tæknival þurfti að taka miklum breytingum á stoðsviðum til að aðlaga sig að breyttum rekstri. Eftir breytingarnar voru áherslur aftur skýrar á það sem ávallt hefur verið kjarnastarfsemi fyrirtækisins en það er sala og þjónusta á tölvubúnaði til fyrirtækja og stofnana. Allt árið 2004 var unnið að því að styrkja þessar áherslur enn frekar.

Árið 2003 var ákveðið að Fujitsu Siemens yrði helsti samstarfsaðili Tæknivals í tölvubúnaði og hefur mikil áhersla verið lögð á að markaðssetja vörumerkið og hefur því töluverðu fjármagni verið varið í þann hluta árið 2004.

Í febrúar var aftur opnuð verslun í Skeifunni 17 en verslunin sérhæfir sig í sölu til fyrirtækja og stofnana og er einnig sýningarrými fyrir þær lausnir sem Tæknival býður upp á.

Í september bættist við vörulínan Hljóð & mynd og þar með býður Tæknival fyrirtækjum og stofnunum einnig upp á lausnir fyrir ráðstefnur og fundarherbergi sem og öryggismyndavélar.

Í október varð Tæknival EMC SE-VAR (Service Enabled Value Added Reseller) eftir margra mánaða undirbúning og mikla þjálfun starfsmanna. EMC er leiðandi í heiminum á sviði gagnageymslna og eftir ítarlega úttekt EMC á innviðum og þekkingu Tæknivals var Tæknival valið sem þjónustuaðila EMC á Íslandi.

Í desember varð Tæknival líka sölu- og þjónustuaðili fyrir Xerox á Íslandi og býður í dag breiða línu af búnaði frá þessum heimsþekkta framleiðanda.

Velta fyrirtækisins var stöðug árið 2004 og var að aukast í lok ársins, framlegð jókst í lok ársins og er stöðug í byrjun árs 2005. Viðsnúningur er fyrirsjáanlegur í rekstri fyrirtækisins en tekur lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir vegna aukins kostnaðar við sölu verlsunarsviðs og síðan innleiðingu nýrra vörumerkja á árinu.

Starfsemi Tæknivals í dag er sú sama og grunnur fyrirtækisins er reistur á en það er sala og þjónusta á heildarlausnum í upplýsingatækni til fyrirtækja og stofnana. Gott starfsfólk með mikla þekkingu og reynslu, þekkt og góð vörumerki sem eru í sókn sem og breið vörulína er grunnurinn sem fyrirtækið byggir á. Eigendur og stjórnendur félagsins eru bjartsýnir að með þessum góða grunni náist góður árangur í framtíðinni segir í tilkynningu fyrirtækisins.