Í viðhorfsrannsókn sem Capacent Gallup gerði nýlega fyrir Íbúðalánasjóð kom í ljós að jákvæðni gagnvart sjóðnum meðal almennings hefur ekki verið meiri frá því að reglubundnar mælingar á viðhorfum í garð Íbúðalánasjóðs hófust. Í könnuninni var m.a. spurt hvort menn teldu að lán í íslenskum krónum ættu að vera verðtryggð áfram. 23,6% vildu halda verðtryggingunni, en 76,4% vildu afnema hana.

Aðeins 3,9% segjast nú vera frekar eða mjög neikvæðir gagnvart sjóðnum, en 14,3% segjast hvorki neikvæðir né jákvæðir. Alls segjast 81,7% jákvæðir í garð Íbúðalánasjóðs, þar af eru 45% mjög jákvæðir og 36,7% frekar jákvæðir. Þeir sem eru mjög jákvæðir hafa ekki verið svo margir áður, eða 45%, en voru 28,5% fyrir þremur árum, 30,4% fyrir tveimur árum og 39% fyrir einu ári.

93,8 prósent telja að Íbúðalánasjóður eigi að starfa áfram í óbreyttri mynd. Þessi tala hefur líka hækkað jafnt og þétt í könnunum á undanförnum árum. Þannig töldu 74,2% að sjóðurinn ætti að starfa óbreyttur áfram fyrir þremur árum, 82,9 prósent voru þeirrar skoðunar fyrir tveimur árum og 85,8 prósent fyrir ári.