Hlutfall ungs fólks sem býr í foreldrahúsum hefur hækkað á undanförnum árum. Á milli 2005 og 2015 hefur hlutfall ungs fólks sem býr í foreldrahúsum aukist úr 48,1 prósentum og upp í 56,9 prósent í aldurshópnum 20 til 24 ára og hefur því hækkað um 8,8 prósentustig á tímabilinu. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar .

Í aldurshópnum 25 til 29 ára hækkaði hlutfallið einnig eða um 5,9 prósentustig milli 2009 og 2015. Hlutfallið hækkaði úr 15,5 prósent upp í 21,4%. Mesta breytingin átti sér stað meðal kvenna á aldrinum 20 til 24 ára — en þar hækkaði hlutfallið úr 36,7 prósent árið 2005 upp í 54,7 prósent árið 2015.

Hlutfall karla á aldrinum 25 til 29 hækkaði einnig talsvert eða úr 19,2 prósentum árið 2009 og upp í 27,4 prósent árið 2015. Þrátt fyrir þetta þá var Ísland með sjötta lægsta hlutfall 20 til 25 ára sem deildi húsnæði með foreldrunum sínum árið 2015 samanborið við aðrar Evrópuþjóðir.