Mikill meirihluti þeirra sem taka afstöðu styðja áherslu á efnahagslegan stöðugleika í stað þess að leggja áherslu á miklar launahækkanir í næstu kjarasamningum. Þetta kemur fram í nýrri könnun Capacent fyrir Samtök atvinnulífsins, en greint er frá niðurstöðum á vefsíðu samtakanna.

Fleiri telja að svigrúm til launahækkana sé lítið en að það sé mikið. Tveggja ára kjarasamninga njóta mests stuðnings. Yfirgnæfandi meirihluti hefur áhyggjur af mikilli verðbólgu. Þá telur meirihluti að kaupmáttur launa sinna hafi minnkað þrátt fyrir óvenju mikla kaupmáttaraukningu á árinu.

Aðspurðir um áherslur í komandi kjarasamningum var svarendum gefinn kostur á því að velja milli fimm kosta. 35% vilja að mest áhersla verði lögð á verulegar launahækkanir, 35% vilja að mest áhersla verði lögð á að stuðla að lágri verðbólgu með hófsömum launahækkunum, 15% vilja áherslu á styttingu vinnutíma, 12% á fjölgun starfa og 3% á annað.

Rúmlega helmingur svarenda, 53% er hlynntur því að í komandi kjarasamningum verði meiri áhersla lögð á stöðugt verðlag og stöðugt gengi krónunnar en í stað þess lögð minni áhersla á launahækkanir. Fjórðungur, 26%, er andvígur slíkri stefnu en 21% tekur ekki afstöðu.