Íslandsbanki tapaði 1,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við 2,6 milljarða króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár var neikvæð um þrjú prósent samanborið við jákvæð 5,9%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Í tilkynningunni er haft eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra að neikvæða niðurstöðu megi rekja til virðisrýrnun, tapi af veltubók verðbréfa og niðurfærslu eigna í fjárfestingabók. Slæma arðsemi megi skýra með aðstæðum sem uppi eru í samfélaginu vegna Covid-19 faraldursins.

Hreinar vaxtatekjur bankans á ársfjórðungnum voru 8,6 milljarðar króna og hækka þær um 700 milljónir milli ára. Hreinar þóknanatekjur lækkuðu um 100 milljónir og námu 5,9%. Virðisbreyting útlána var neikvæð um tæplega 3,5 milljarða króna.

Af yfirlitinu má einnig ráða að útlán til viðskiptavina hafi aukist um 2,7% á tímabilinu og námu þau alls 924 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins. Ný útlán námu 57 milljörðum króna sem er hækkun um sex milljarða milli ára. Endurfjármögnun lána nam 16 milljörðum króna.

„Það er þó ánægjulegt að sjá að rekstrarkostnaður á fyrsta ársfjórðungi lækkar um 8,4% á milli ára og einnig jukust vaxtatekjur um 8,1% á milli ára. Íslandsbanki hélt áfram að styðja við viðgang efnahagslífsins á fjórðungnum þar sem ný útlán námu 57 ma. kr. Innlán jukust um 4,8% frá árslokum og eru enn sem áður meginstoð fjármögnunar bankans,“ er haft eftir Birnu Einarsdóttur.

„Breyttar aðstæður í þjóðfélaginu vegna COVID-19 hafa valdið því að við höfum þurft að hugsa í lausnum gagnvart okkar viðskiptavinum. Við viljum þakka okkar viðskiptavinum fyrir að hafa aðlagast hratt að breyttum aðstæðum og sýnt þolinmæði á krefjandi tímum. Starfsfólk bankans hefur stundað vinnu sína heima og sýnt mikla aðlögunarhæfni í breyttum aðstæðum. Sterkur efnahagur heimila og fyrirtækja sem og styrkur íslenska bankakerfisins og mikil aðlögunarhæfni íslensks efnahagslífs gerir Íslendingum kleift að komast í gegnum atburði líðandi stundar,“ segir Birna enn fremur.