Hreiðar Hermannsson og sonur hans Hermann, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, hugðust upphaflega opna nýtt 200 herbergja hótel á Orrustustöðum á þessu ári. Hreiðar segir að vegna skipulagsmála hafi verkefnið dregist á langinn. Í október á síðasta ári samþykkti Skaftárhreppur deiliskipulag fyrir svæðið en aðeins fáeinir dagar eru síðan Skipulagsstofnun ákvað að framkvæmdirnar væru ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var birt 10. febrúar og rennur kærufrestur út þann 11. mars.

„Þetta er búið að taka langan tíma en nú hillir undir að við getum hafist handa," segir Hreiðar. "Við fáum vonandi framkvæmdarleyfi fljótlega og þegar það gerist þá munum við klára fjármögnunina. Í heildina mun þetta kosta á bilinu 3,2 til 3,3 milljarða króna."

Hótelið verður byggt á jörðinni Orrustustöðum í Skaftárhreppi. Jörðin er á Brunasandi fyrir sunnan Brunahraun um 20 kílómetrum austan við Kirkjubæjarklaustur. Jörðin lagðist í eyði um 1950 og því liggur enginn vegur að henni. Hreiðar segir að nýr vegur verður lagður í samstarfi við Vegagerðina. Enn fremur þurfi að byggja upp aðra innviði því engin vatnsveita sé á svæðinu, rafmagn eða fráveita. Ljóst sé að leggja þurfi töluverði vinnu í þessa þætti áður en hótelið sjálft verði byggt.

„Ef allt gengur að óskum þá munum við hefja vegagerðina í vor og framkvæmdir við hótelið sjálft í lok sumars eða haust. Það getur vel verið að við náum að opna hótelið í september eða október á næsta ári."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .