Síðustu ár hefur framboð á ferðum milli Keflavíkur og flugvallanna við London aukist hratt. Í febrúar verða farnar að jafnaði 6 ferðir á dag héðan til bresku höfuðborgarinnar. Kemur þetta fram í umfjöllun á fréttasíðunni Túristi.is .

Í febrúar næstkomandi verða farnar allt að 42 ferðir í viku frá Keflavík til London. Á sama tíma árið 2012 voru þær hins vegar tuttugu.

Vetrardagskrá flugfélaganna hófst í lok október og verður hún í gildi fram í lok mars. Ef hvert sæti verður skipað í þotunum sem fljúga héðan til London næstu fimm mánuði verður pláss fyrir um 180 þúsund farþega. Icelandair stendur undir 47 prósent af framboðinu, easyJet 28 prósent og WOW air fjórðungi samkvæmt talningu Túrista.