Tekjuafgangur ríkissjóðs var 294,6 milljarðar króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ríkisreikningi, sem nú hefur verið sendur Alþingi. Afgangurinn árið áður var 20 milljarðar. Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að afgangur síðasta árs skýrist fyrst og fremst af stöðugleikaframlögum slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja.

Hreinar tekjur vegna þeirra námu 414,6 milljörðum. Útgjöld ríkissjóðs voru talsvert umfram heimildir fjárlaga, aðallega vegna stóraukinna framlaga í fjáraukalögum vegna lífeyrisskuldbindinga sem tengjast uppgjöri á skuldbindingum A-deildar LSR. Þá var ríkissjóður með hreinan lánsfjárafgang sem nemur 3,9% af landsframleiðslu ársins, sem var umfram væntingar.

Í tilkynningunni er haft eftir Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra að eðlilegt og ábyrgt sé að nýta góðærið með afgangi á rekstri ríkissjóðs og niðurgreiðslu skulda til að sporna við þenslu og ofhitnun hagkerfisins, en jafnframt til uppbyggingar innviða og styrkingar á velferðarkerfinu.