*

miðvikudagur, 14. apríl 2021
Innlent 3. mars 2021 08:58

Rifta samningi við ÍAV á Kirkjusandinum

Miklar tafir á afhendingu einstakra verkþátta ásamt meintra vanefnda á frágangi húsnæðisins eru sagðar liggja að baki ákvörðun 105 Miðborgar.

Ritstjórn
Frá fyrstu byggingastigum á Kirkjusandsreitinum.
Haraldur Guðjónsson

Fjárfestingarsjóðurinn 105 Miðborg slhf. hefur rift verkkaupasamningi sínum við Íslenska aðalverktaka (ÍAV) um uppbyggingu á lóðum að Kirkjusandi í Reykjavík, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins

Ástæður riftunarinnar af hálfu verkkaupans séu gríðarlegar tafir á afhendingu einstakra verkþátta af hálfu ÍAV ásamt því að verktakinn hafi ekki skilað byggingum af sér í ásættanlegu ásigkomulagi. Meðal galla hafi verið óslétt gólf í íbúðum og veggir, gallar á gluggum og hurðum og öðru sem ráða þurfti bót á. Þegar ekki náðist samkomulag um betrumbætur var verkfræðistofan EFLA kölluð til sem úttektaraðili á framkvæmdinni. Hún skilaði skýrslum um allar íbúðir bygginganna en athugasemdir vegna þeirra voru rúmlega 6.000 talsins. 

Heildarumfang framkvæmdanna var metið á tíu milljarða króna á sínum tíma. Byggingarmagn á lóðunum nemur um 34 þúsund fermetra en um er að ræða fjölbýlishús á reitum B og C sem bera viðurnefnin Sólborg og Stuðlaberg. Í Sólborg eru 52 íbúðir í þremur lyftuhúsum en 77 íbúðir á fjórum til sjö hæðum eru í Stuðlabergi. 

Afhenta átti fyrstu íbúðir í lok árs 2019 en það gekk ekki eftir. Tafir við afhendingu Stuðlaborgar eru taldar vera 15 mánuðir og í tilfelli Sólborgar um 12 mánuðir en stærstur hluti íbúðanna hefur verið seldur. 

Aðeins er lokið við uppsteypu við 7.000 fermetra skrifstofubygginguna sem mun heita Sjávarborg. Mikið liggur á að koma framkvæmdunum í eðlilegt horf en fyrir liggur leigusamningur við heilbrigðisráðuneytið um útleigu á rúmlega 1.500 fermetra rými undir starfsemi heilsugæslu sem taka á í notkun næstu áramót. 

Eigendur 105 Miðborgar, sem er í stýringu Íslandssjóða, eru tíu íslenskir lífeyrissjóðir, fimm vátryggingafélög og ellefu fagfjárfestar. Stærstu hluthafar eru Lífsverk og Lífeyrissjóður Verslunarmanna með 11,25% hlut hvor, Brimgarðar með 10%, Sjóvá 9,5%, Brú lífeyrissjóður með 8,75%, VÍS með 8,5% og Festa lífeyrissjóður og Íslandsbanki eiga sitthvorn 6,25% hlut.