Skiptastjóri þrotabús Fons, í samráði við skiptafund, hefur ákveðið að kalla ekki til baka breytingar á eignarhaldi Fons á Iceland Express síðastliðið haust en þá var hlutur Fons í flugfélaginu þynntur út vegna hlutafjáraukningar.

Fons tók með öðrum orðum ekki þátt í hlutafjáraukningunni heldur Fengur. Nam hlutafjáraukningin 300 milljónum króna. Bæði félögin Fons og Fengur eru í eigu Pálma Haraldssonar.

Skiptastjóri hafði þennan gjörning til skoðunar og hvort í honum fælist eftirgjöf eða annað sem kallaði á riftingu samkvæmt gjaldþrotalögum. Samkvæmt þeim má rifta viðskiptum til tengdra aðila allt að tvö ár aftur í tímann frá svokölluðum frestdegi, þ.e. frá þeim degi sem dómara berst krafa um gjaldþrotaskipti.

Fons var formlega tekið í gjaldþrotameðferð hinn 30. apríl sl.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins fékk skiptastjóri fjármálafyrirtæki, sem ekki fæst nafngreint, til þess að meta umrædd viðskipti. Niðurstaða þess var sú að Fons hefði ekki haft burði til að taka þátt í hlutafjáraukningunni til að verja stöðu sína í Iceland Express.

Því taldi skiptastjórinn að það væri ólíklegt að hægt væri að rifta gerningnum. Bar hann þá afstöðu undir skiptafund í dag og greiddu allir viðstaddir kröfuhafar atkvæði með þeirri niðurstöðu.