Í lok síðasta árs tilkynnti Icelandic Group hf. að félagið hefði gert samning um sölu á öllum hlutabréfum sínum í VGI ehf, sem er stærsti endursöluaðili umbúða á Íslandi. Samningurinn átti að taka gildi þann 1. janúar 2007. Kaupendur hafa nú rift kaupsamningnum eftir gerð áreiðanleikakönnunar og hefur salan á félaginu gengið til baka að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í Vegvísi Landsbankans er vakin athygli á því að reiknað hafi verið með að söluhagnaður vegna þessarar sölu myndi tekjufærast á fyrsta ársfjórðungi ársins 2007 en söluverð hefði verið 270 milljónir króna en bókfært verð í lok september í fyrra var 81,4 milljónir króna að því er fram hafði komið í tilkynningu til Kauphallarinnar.