Þau fimm riftunarmál sem þrotabú Baugs hefur höfðað vegna tilfærslu Haga yfir í 1998 ehf. verða þingfest í héraðsdómi 23. mars næstkomandi. Þeim sem stefnt var eru Fjárfestingarfélagið Gaumur, Gaumur Holding (bæði í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu), ISP (í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs) og Bague S.A. (í þriðjungseigu Hreins Loftssonar).

Þeim er stefnt til endurgreiðslu á mörgum milljörðum króna sem runnu til félaganna vegna sölunnar á Högum frá Baugi og til þeirra. Auk þess var Banque Havilland, sem áður hét Kaupþing í Lúxemborg, stefnt til endurgreiðslu á því fé sem rann til bankans í sömu viðskiptum. Um fimmtán milljarðar króna voru þá nýttir til að greiða niður lán hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Ekki er ljóst hvort krafan á heima hjá Banque Havilland eða þrotabúi Kaupþings í Lúxemborg, sem kallast Pillar Securitisation. Því stefndi þrotabúið báðum aðilum.