Dómi héraðsdóms Reykjavíkur um riftun á 15 milljarða greiðslum Baugs verður áfrýjað, að því er lögmaður félaganna segir í samtali við mbl.is .

Greiðslum Baugs Group til Gaums, Gaums Holding, Eignarhaldsfélagsins ISP og Bague S.A. upp á rúma fimmtán milljarða króna var í dag rift með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur . Þrotabú Baugs höfðaði málið. Félögin eiga svo að greiða þrotabúinu einar 59 milljónir króna í málskostnað.

Eftir að Baugur Group seldi Haga til 1998 ehf. sumarið 2008 var ákveðið að Baugur myndi kaupa hlutabréf áðurnefndra fjögurra félaga í Baugi fyrir alls fimmtán milljarða króna. Félögin voru í eigu stjórnarmanna Baugs. Gaumur og Gaumur Holding voru í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans, ISP eignarhaldsfélag var í eigu Ingibjargar Pálmadóttur og Bague S.A. í eigu Hreins Loftssonar.

Í dómnum segir að greiðslurnar hafi skert eignir Baugs og raskað hagsmunum almennra kröfuhafa við slit á búinu. Greiðslurnar hafi verið notaðar til að greiða niður skuldir þessara fjögurra félaga hjá Kaupþingi og þar með hafi félögin auðgast á viðskiptunum.

Gísli segir aftur á móti að þessar greiðslur hafi ekki leitt af sér auðgun fyrir hluthafana. Rauði þráðurinn í vörninni hafi verið að þessi viðskipti hafi leitt af sér stórfellt tap fyrir hluthafa. „Þess vegna var á því byggt að skilyrði til að rifta gjörningnum, með vísan til þess að þetta væri einhverskonar gjafaígildi væri ekki uppfyllt. Það þurfti að sýna fram á tjón búsins og samsvarandi hagnað hluthafanna,“ segir Gísli við mbl.is. Viðskiptin hafi leitt af sér stórfell tap fyrir þá sem tóku þátt.