Þriggja manna nefnd kannar fjárfestingarstefnu, ákvarðanir og lagalegt umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins. Áætlað er að hún ljúki störfum á fyrri hluta árs 2011.

Þetta segir í tilkynningu frá Landssamtökum lífeyrissjóði. Samtökin senda frá sér tilkynninguna vegna ummæla Guðrúnar Johnsen, hagfræðings, og Guðna Ágústsonar, fyrrverandi alþingismanns, um að þörf sé á að rannsaka starfsemi lífeyrissjóðanna fyrir fall bankakerfisins.

„Rétt er, af gefnu þessu tilefni, að minna á að það er einmitt unnið að því, í þriggja manna nefnd óháðra, óvilhallra og hæfra einstaklinga, að kanna fjárfestingarstefnu, ákvarðanir og lagalegt umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins.“

Ríkissáttarsemjar skipaði rannsóknarnefndina að ósk Landssamtaka lífeyrissjóða. Í henni sitja Hrafn Bragason, lögfræðingur og fyrrverandi hæstaréttardómari, Guðmundur Heiðar Frímannsson, siðfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri og Héðinn Eyjólfsson, viðskiptafræðingur. Hrafn er jafnframt formaður nefndarinnar.

Þá starfar Kristján Geir Pétursson lögfræðingur með nefndinni.