Þriðja endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og íslenskra stjórnvalda hefur verið samþykkt. Framkvæmdarstjórn AGS tók málefni Íslands fyrir á fundi sínum í dag sem hófst kl 14.00 að íslenskum tíma.

Með samþykktinni fæst aðgangur að næsta hluta láns AGS. Nemur hluti lánsins um 160 milljónir dala, jafnvirði um 19 milljarða íslenskra króna. Mun gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands styrkjast sem því nemur.

Auk þess er gert ráð fyrir lánafyrirgreiðslu frá Póllandi og Norðurlandaþjóðunum í tengslum við endurskoðunina.

Umtalsverður árangur frá hruni

Í viljayfirlýsingu (e. letter of intent) sem íslensk stjórnvöld endurnýjuðu og sendu AGS segir að umtalsverður árangur hafi náðs frá hruni. Aukið jafnvægi í ríkisfjármálum hafi sýnt sig í vaxandi trausti, sterkara gengi krónunnar og meiri stöðugleika hagkerfisins frá lokum árs 2009.

„Atvinnuleysi hefur að líkindum náð hámarki, verðbólga fer ört lækkandi og hagvöxtur verður aftur jákvæður á seinni hluta árs 2010, samkvæmt spám. Þrátt fyrir nokkuð háa skuldastöðu hins opinbera, er hún metin viðráðanleg. Spáð er lækkun á halla ríkissjóðs úr 14% af vergri landsframleiðslu um mitt ár 2009 í 9% árið 2010. Skuldatryggingarálag ríkisins hefur jafnframt lækkað niður í um 300 punkta,“ segir í tilkynningu.