Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að þriðja hrunið sé raunhæfur möguleiki og gæti gert sjálft ríkið gjaldþrota.

Þetta segir Vilhjálmur í pistli á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins. Hann segir að býsna hægt hafi gengið að komast yfir áfallið nú þegar tvö ár eru liðin frá bankahruninu.

Þar nefnir Vilhjálmur skuldamál heimila og fyrirtækja og að bankarnir séu ekki enn komnir í jafnvægi. Ýmislegt hafi þó gengið betur en reiknað var með og upphaflegar spár um 10% samdrátt landsframleiðslu árið 2009 hafi ekki gengið eftir.

Útilokar ekki annað hrun

„Mikil óvissa er ennþá í kringum fjármálakerfið og ekki útilokað að annað hrun verði. Nú er látið reyna á ýmsa gerninga fyrir dómstólum sem snúa að neyðarlögunum og ESA er að skoða mál eins og kaup á skuldabréfum út úr peningamarkaðssjóðum.

Síðast en ekki síst hefur dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengisbundinna lána í krónum sett strik í reikninginn. Ef allt fer á versta veg fyrir fjármálafyrirtækin verða höggvin þung skörð í eignasöfn þeirra, sem ekki eru öll beysin fyrir, og það getur auðveldlega þurrkað upp eigið fé þeirra og gott betur,“ segir Vilhjálmur. Þriðja hrunið sé ennfremur raunhæfur möguleiki en það gæti gert sjálft ríkið gjaldþrota.

Vilhjálmur nefnir að Alþingi muni innan tíðar taka ákvörðun um hvort sækja eigi nokkra ráðherra ríkisstjórnarinnar, sem sat í aðdraganda bankahrunsins, til saka fyrir vanrækslu og draga þá fyrir landsdóm. „Vandséð er hvernig hægt er að sakfella þetta fólk fyrir vanrækslu án þess að ríkið sjálft verði þá bótaskylt vegna afleiðinga meintra misgjörða þeirra. Íslenska ríkið hefur í ótal tilvikum verið dæmt bótaskylt vegna þess sem úrskeiðis hefur farið í stjórnarframkvæmd eða stjórnsýslu,“ segir Vilhjálmur.

Pistil Vilhjálms má lesa hér