Icelandair hefur nú tekið í notkun þriðju Boeing 757 þotu sína eftir gagngerar breytingar á innréttingum hennar og tæknibúnaði fyrir farþega, en stefnt er að því að öllum flugvélunum sem félagið notar í áætlunarflugi til og frá landinu verði breytt fyrir lok ársins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Í breytingunni felst sem kunnugt er að sett eru ný leðursæti í vélarnar, sætabil er aukið og fullkomið afþreyingarkerfi er fyrir hvern og einn farþega.

„Jafnframt er gerð umtalsverð breyting á annarri þjónustu Icelandair og viðmóti þar sem höfuðáhersla verður lögð á þá sérstöðu félagsins að vera íslenskt félag í alþjóðaflugi. Meðal annars verða kynntir nýjir einkennisbúningar á árinu, samstarf við íslenska tónlistarmenn, nýjungar í veitingum um borð og ýmislegt fleira tengt landi og þjóð,“ segir í tilkynningunni.

Skemmtikerfið byggir á því að allir farþegar hafi í sæti sínu aðgang að snertiskjá þar sem þeim bjóðast margskonar afþreyingarmöguleikar. Um er að ræða vélbúnað og hugbúnað sem unnt er að þróa til framtíðar til að sinna óskum og þörfum viðskiptavina. Hver farþegi hefur aðgang að og getur valið sér fjölda nýrra kvikmynda, sjónvarpsþátta, tölvuleikja, tónlist og fleira.

„Við finnum mikla ánægju farþega með þetta og erum taka vélarnar í gegn eina í einu. Þrjár eru búnar og allur flotinn verður samkvæmt áætlun kominn í nýjan búning um áramótin næstu", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.