Það sem af er þessu ári hefur Glitnir verið duglegur að sækja sér fjármagn en útgáfan nú er þriðja opinbera útgáfa bankans á árinu. Í byrjun janúar seldi Glitnir skuldabréf til bandarískra og evrópskra fjárfesta fyrir 1,25 milljarða Bandaríkjadala sem samsvarar 88,5 milljörðum króna. Í lok janúar lauk bankinn svo við sölu skuldabréfa fyrir 500 milljónir evra sem samsvarar til 44,6 milljarða íslenskra króna. Það sem af er ári hefur Glitnir því tryggt sér fjármögnun fyrir alls rúmlega 172 milljarða króna.

Að sögn Ingvars Ragnarssonar, forstöðumanns alþjóðlegrar fjármögnunar Glitnis, er útgáfan nú talsvert ólík fyrri útgáfum bankans. Fyrir það fyrsta er hún í pundum og einnig er um að ræða fastvaxtaútgáfu, en venjulega hafa útgáfur Glitnis verið með breytilegum vöxtum. Þá er fjárfestahópurinn annar en venjulega, en þessari útgáfu var beint að breskum eignastýringarfyrirtækjum, tryggingarfélögum og lífeyrissjóðum.

"Viðtökurnar voru mjög góðar og mikill áhugi var á meðal fjárfesta, upprunalega ætluðum við að selja skuldabréf fyrir 250 milljónir punda, en enduðum á að gefa út 300 milljónir punda til að koma til móts við mikla eftirspurn, en heildareftirspurnin nam 450 milljónum punda," segir Ingvar. Að hans sögn var útgáfan gerð með þessa fjárfesta sérstaklega í huga og því sé ánægjulegt að áhuginn hafi verið eins mikill og raun bar vitni.

Að sögn Ingvars voru kjörin góð og í samræmi við þau kjör sem bankinn hefur notið á þessu ári. "Verðið er 40 punktar yfir LIBOR vöxtum og 10 punktar yfir fimm ára álagi á skuldatryggingar bankans," segir Ingvar. "Kjörin hafa batnað mikið á þessu ári og í kjölfar útgáfunnar nú, hefur álagið á skuldatryggingum Glitnis farið niður fyrir 30 punkta í fyrsta sinn í meira en eitt ár."

Ingvar segir að markaðurinn sé mjög heitur um þessar mundir og eftirspurnin mikil og bankinn hafi verið duglegur að nýta sér þessar markaðsaðstæður. Að hans sögn tryggja útgáfur undanfarinna vikna nánast alla endurfjármögnun bankans fyrir næsta ár. "Við höfum gefið út fyrir tvo milljarða evra á árinu en endurfjármögnun næsta árs er í heildina litið rúmlega 2,5 milljarðar evra. Af þessu má sjá að Glitnir á eingöngu eftir að tryggja sér 20% endurfjármögnunar ársins. Staða okkar er mjög sterk um þessar mundir, lausafjárstaðan er góð, endurfjármögnun þess árs er tryggð," segir Ingvar. Að hans sögn mun Glitnir þó halda áfram að tryggja sér alþjóðlega fjármögnun út árið. "Sterk lausafjárstaða og áframhaldandi góður aðgangur að mörkuðum tryggir það að við getum farið að undirbúa frekari vöxt bankans," segir Ingvar.