Landsbanki Íslands hefur bætt við þriðju stoðinni undir starfsemi sína í London. Einingin, sem nefnist Landsbanki Commercial Finance, sérhæfir sig í eignatryggðri fjármögnun og hefur bankinn ráðið til  sín þrjá einstaklinga, sem samanlagt hafa rúmlega 50 ára reynslu í greininni, segir Lárus Welding,  útibústjóri bankans í London í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag.

Lárus áætlar að einingin geti vaxið ört og segir að þegar hafi nýja teymið lokað einum viðskiptum að virði 1,2 milljarðar króna. "Við sjáum fyrir okkur að lánasafn einingarinnar nemi um 50 milljörðum eftir fimm ár," segir Lárus.

Nýja einingin samanstendur af Alan McLaren, Brent Osborne og David Morris. Þríeykið starfaði áður hjá GMAC Commercial Finance, sem er hluti að lánaeiningu bandaríska bílarisans General Motors. Þeir hafa starfað saman í 14 ár við eignatryggða fjármögnun og eru því vel tengdir og koma með talsvert af viðskiptum með sér, segir Lárus.

Landsbankinn er fyrsti íslenski bankinn til að bjóða viðskiptavinum sínum upp á þessa þjónustu erlendis, segir hann og bætir við að stofnun einingarinnar sé liður í að bjóða viðskiptavinum bankans upp á heildarfjármögnunarlausnir við almennan rekstur og yfirtökur fyrirtækja.

"Eignatryggð fjármögnun getur verið mun sveigjanlegri fjármögnun en til dæmis skuldsett fjármögnun, þar sem lánað er nánast eingöngu gegn peningaflæði fyrirtækis," segir Lárus. Eignatryggð fjármögnun felur í sér að lánað er gegn eignum fyrirtækis og þá helst útistandandi kröfum sem fyrirtækið á.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.